Formaður Fíh: „Mikil vonbrigði“

„Þetta eru mikil vonbrigði,“ sagði Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, sem var á leið út úr húsakynnum ríkissáttarsemjara. „Maður vænti þess að stjórnvöld tækju mark á afdráttarlausri niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar. En svo var greinilega ekki.“

Alls voru 63,64% félagsmanna í Fíh sem greiddu atkvæði um yfirvinnubannið sem tekur að óbreyttu gildi 10. júlí nk. Aðeins 5,4% voru mótfallin banninu. 

Í yfirlýsingu frá Fíh segir að stjórn og samninganefnd Fíh harmi þá stöðu sem upp er komin en vísa annars alfarið á stjórnvöld varðandi lausnir á þeim vanda sem boðað yfirvinnubann kann að valda. „Það er stjórnvalda að halda uppi heilbrigðisþjónustunni og sjá til þess að hún sé mönnuð. Það er ekki hægt án hjúkrunarfræðinga og eins og margoft hefur komið fram þá er þörf og krafa um yfirvinnu á þessum tíma,“ segir Elsa en tekur fram að enn gefist tími til málamiðlana.

Næsti fundur samninganefnda er boðaður næstkomandi mánudag. Elsa vonar að samninganefnd ríkisins nýti tímann til að vinna heimavinnuna sína. „Maður skyldi alla vega halda að hún gerði það, þ.e. ef stjórnvöld vilja koma í veg fyrir það ástand sem mun skapast ef yfirvinnubannið tekur gildi.“


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert