Magnús: Ekki góð byggingarlist

Tillaga að nýjum Listaháskóla við Laugaveg.
Tillaga að nýjum Listaháskóla við Laugaveg. mbl.is

„Mér finnst þetta ekki góð byggingarlist. Þetta minnir mig á eitthvað frá 1960 sem er jafnvel verið að rífa úti í Evrópu í dag. Mér finnst þetta ekki vera í réttum mælikvarða við þá byggð sem fyrir er og að það þurfi að endurskoða þetta verkefni,“ segir Magnús Skúlason arkitekt um vinningstillögu að nýbyggingu Listaháskóla Íslands við Laugaveg.

Ólafur F. Magnússon borgarstjóri hefur tilkynnt að Magnús muni taka við sæti Ólafar Guðnýjar Valdimarsdóttur sem aðalfulltrúi F-listans í skipulagsráði Reykjavíkurborgar á næsta fundi borgarráðs. „Svo er það sem er kannski alvarlegast að það skuli vera ráðgert að rífa þessi tvö hús við Laugaveginn sem ég tel vera varðveisluverð og nauðsynleg til þess að halda í götumynd Laugavegarins. Það er ekki spurning að ég mun fylgja því fast eftir að þau standi áfram,“ segir Magnús enn fremur.

Magnús segir að skipun sín í ráðið sé ekki tilkomin vegna umræðu um nýbyggingu Listaháskólans. „Ólafur leitaðist eftir því við mig snemma í sumar hvort ég vildi taka þetta að mér og ég játti því,“ segir Magnús.

Væntanleg seta Magnúsar í skipulagsráði verður ekki hans fyrstu kynni að borgarmálunum því hann sat í byggingarnefnd Reykjavíkur fyrir Alþýðubandalagið frá 1974 til 1986, þar af fjögur ár sem formaður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert