Fjármálakvíði og streituröskun

Ásta S. Helgadóttir.
Ásta S. Helgadóttir. mbl.is/Kristinn

„Hægt er að spyrna við kvíða og streitu með því að forðast fljótfærni og óvirkni í fjármálum,“ segir Jón Sigurður Karlsson sálfræðingur í nýlegri grein sinni um streitustjórnun á erfiðum tímum.

„Það er stundum eins og fólk afhendi bankanum peningavitið,“ segir hann og tekur fram að mikilvægt sé að skoða stöðuna á blaði í stað þess að hunsa vandamálið og vona það besta.

„Þetta reddast“ viðhorfið

„Að stinga höfðinu í sandinn dugir skammt þegar fólk á í verulegum fjárhagserfiðleikum, “ segir Jón Sigurður og bætir við að mikilvægt sé að takast á við streitu og kvíða sem fylgir erfiðleikunum strax. Hann tekur fram í grein sinni að mikilvægt sé að fólk taki eftir einkennum sem tengjast fjármálum og leiti aðstoðar hjá sálfræðingi eða heilsugæslu áður en að vandinn vex og verður að vítahring.

„Þegar kreppir að okkur eru sumir líklegri til að snúa sér að óheilbrigðum lífsstíl og vanlíðan getur leitt til árekstra og illdeilna milli hjóna,“ segir í greininni þar sem bent er á að styrkur felist í aðstoð. „Varðandi kvíða- og streitustjórnun er hægt að skapa sér tækifæri og breyta neyslu,“ segir hann og bendir á að áhugavert sé að skoða nýskráningar í nám miðað við niðursveiflu.

Styrkur felst í aðstoð

Ásta S. Helgadóttir forstöðumaður Ráðgjafastofu um fjármál heimilanna greinir aukningu þeirra er leita fjárhagsaðstoðar.

„Í okkar starfi sjáum við að fólk á erfitt með að stíga fyrsta skrefið en þegar það er stigið skapast ákveðin léttir,“ segir hún og bætir við að fólk kvíði því að skoða fjárhagsstöðu sína. „Fjárhagsvandi vex oftast mjög hratt og því er mikilvægt að grípa sem fyrst til aðgerða,“ segir hún en tekur fram að mikilvægt sé að láta t.a.m. kröfuhafa vita sem fyrst ef um erfiðleika er að ræða.

„Það er merki um styrk að leita sér aðstoðar en ekki uppgjöf.“

Í hnotskurn
Verðbólga og veikt gengi krónunnar hefur áhrif á fjárhagsstöðu fólks og margir þurfa að endurskipuleggja fjármálin. Jón Sigurður skrifaði grein sem ber titilinn Streitustjórnun á erfiðum tímum og er aðgengileg á vefnum www.persona.is.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert