Vilji til aukins samstarfs við Austur-Grænland

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir á Ísafirði í dag.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir á Ísafirði í dag. mynd/bb.is

Utanríkisráðuneytið og Ísafjarðarbær hafa undirritað viljayfirlýsingu þess efnis að unnið verði saman að úttekt á möguleikum þess að koma á auknum samskiptum og viðskiptum milli Grænlands og Ísafjarðarbæjar, með sérstakri áherslu á Austur-Grænland.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, var á Ísafirði í dag. Hún  segir mikla möguleika felast í samstarfi við Grænland og að þeir felist í margvíslegum atriðum, m.a. þjónustu við námuvinnslu sem til stendur að reisa á Austur-Grænlandi. Þá segir hún að mikilvægt sé að hafa skjótar hendur í þessu máli.

„Ég fór til Austur-Grænlands að heimsækja kollega minn þar og Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, var í fylgdarliðinu með mér þar. Þar áttuðum við okkur á þeim möguleikum sem í þessu samstarfi liggja – og þeir eru okkur mjög nálægir í tíma“, segir Ingibjörg.

„Náman verður rekin þannig að þangað verður selflutt fólk fram og til baka til vinnu. Það býr ekki á staðnum nema rétt á meðan það er á vakt að vinna. Og það verður kannski skipt um áhöfn á 3-4 vikna fresti. Þá er eiginlega styst að fljúga hingað til Íslands, það er miklu styttra heldur en til Nuuk eða til Danmerkur. Þannig að við getum verið bakland: Það þarf að koma vistum þangað út, það þarf að koma tækjum og tólum á meðan verið er að vinna, það er gert ráð fyrir að þarna verði nokkuð stór flugvöllur – og svæðið er hægt að þjónusta héðan“

Í viljayfirlýsingunni segir svo að Grænlendingar horfi til Íslands sem góðs nágranna sem tekist hafi að byggja „velferðarríki á norðurslóðum“ og að aukin samvinna muni án efa efla atvinnuuppbyggingu á Vestfjörðum sem og á Grænlandi.

Áætlað er að úttektin kosti eina milljón króna og leggur Ísafjarðarbær fram 500 þúsund á móti jafn stóru framlagi utanríkisráðuneytisins. Frumúttekt verður gerð af Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert