Tjón: „Þetta er bara skrípaleikur“

Jarðskjálftinn á Suðurlandi
Jarðskjálftinn á Suðurlandi mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Húsið okkar er ónýtt, það er alveg rétt. Við gengum hins vegar frá kaupum á nýju húsi hér á Eyrarbakka í gær. Það verður að segjast eins og er að þetta kerfi er allt svo seinvirkt að það er ekkert hægt að bíða eftir því. Við vildum byggja upp en það er bara ekki boðlegt nú þegar haust er að ganga í garð,“ segir Ingibjörg Guðmundsdóttir, íbúi á Eyrarbakka.

Hús Ingibjargar og manns hennar skemmdist svo mikið í Suðurlandsskjálftunum í maí síðastliðnum að það var úrskurðað óviðgerðarhæft. Ingibjörgu finnst hægt hafa gengið við frágang málsins. „Húsið var dæmt ónýtt svo að segja strax og okkur bent á að dvelja ekki í því. Okkur var útvegað húsnæði sem við hefðum reyndar þurft að rýma á næstunni. Seinagangurinn í framhaldinu finnst mér svo hafa verið ótrúlegur. Ég skil ekki af hverju ekki var hægt að ganga frá þessu svo að segja strax.“

„Ótrúleg skriffinnska“

Ingibjörg segir að ótrúleg skriffinnska sé í kringum allt sem viðkemur framkvæmdaleyfum til niðurrifs á húsinu.

„Það hefur verið samþykkt að ríkið borgi fyrir niðurrifið sem er hið besta mál. Málið þarf hins vegar að fara fyrir þessa nefndina og hina. Þetta er bara skrípaleikur. Að þurfa að tala við þenan mann sem þarf að tala við verkfræðistofu sem þarf að senda niðurrifið í lokað útboð, það tekur bara allt of mikinn tíma.“

Ingibjörg segist vita að fjöldi fólks sé í sömu stöðu og þau hjón og margir séu óánægðir með hversu seint gangi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert