Lúxusblokkir verða endurklæddar

Blokkirnar í fyrsta áfanga Skuggahverfisins verða endurklæddar. Nokkrar flísar hafa fallið af þeim á undanförnum árum og í kjölfarið voru um 200 flísar fjarlægðar sem varrúðarráðstöfun. Klæðning blokkanna, sem eru svokallaðar „lúxusíbúðir“, hefur því verið nokkuð götótt í á annað ár.

Framkvæmdirnar hefjast í haust og standa fram á vor. Þetta staðfestir Ágúst Kr. Björnsson, framkvæmdastjóri 101 Skuggahverfis. „Við erum að leita leiða til að gera við þessi hús á sem bestan hátt og höfum lagt ríka áherslu á það við lagfæringuna að það verði engin ásýndarbreyting á húsunum. Flísarnar verða því eins en með nýju upphengjukerfi. Við höfum náð samkomulagi við forsvarsmenn húseigenda um hvaða leið sé farsælust í þessu. Á grundvelli þess samkomulags erum við að fara að hefja framkvæmdir.“

Ágúst segir að vandkvæðunum varðandi klæðninguna hafi fylgt eitthvert tjón, svo sem lekaskemmdir.

Dómkvaddir skila á næstunni

Ekki liggur enn fyrir hver mun bera kostnaðinn af framkvæmdunum þar sem dómsmál milli 101 Skuggahverfis og Eyktar, sem var aðalverktaki við byggingu fyrsta áfanga Skuggahverfisins, hefur enn ekki verið til lykta leitt. Dómkvaddir matsmenn hafa verið kvaddir til og eiga þeir að skila niðurstöðu sinni á næstunni. Upphaflegar kröfur og gagnkröfur deiluaðila voru upp á um 200 milljónir króna en Ágúst vill ekki uppljóstra hversu hár kostnaður vegna endurbótanna er. Hann sé þó allnokkur.

Í desember 2006 féllu þrjár flísar af blokkunum og í kjölfarið voru hátt í 200 til viðbótar fjarlægðar. Í maí síðastliðnum var sagt frá því í 24 stundum að tvær til viðbótar hefðu fallið af úr nokkurri hæð og brotnað á gangstéttinni fyrir neðan. Hver flísanna er um fimm kíló að þyngd.

Í kjölfarið skrifaði Magnús Sædal Svavarsson, byggingafulltrúi Reykjavíkurborgar, 101 Skuggahverfi bréf og óskaði eftir skýringum á málinu. Hann segist hafa fengið þær skýringar. „Þetta voru hitabreytingar sem ollu þessum skemmdum. Það varð misjöfn þensla í festingarkerfinu hjá þeim.“ Hann segir ekkert sérstakt eftirlit með þessum húsum í dag. „Þeir bera náttúrlega ábyrgð á því að þetta valdi ekki skaða á fólki og passa sig á því sjálfir. Þeir vita hvaða galli var á ferðinni og brenna sig ekki á sama soðinu tvisvar.“ Magnús mun þó óska eftir upplýsingum um nýja festingarkerfið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert