Lyfjakostnaður Landspítalans jókst um 34,6%

Landspítalinn
Landspítalinn mbl.is/Ómar

Lyfjakostnaður Landspítalans jókst um 34,6% á fyrstu átta mánuðum ársins samanborið við sama tímabil í fyrra. Um er að ræða S-merkt lyf en það eru lyf sem eru eingöngu til sjúkrahúsnota. Nam kostnaðurinn rúmlega 1,9 milljörðum króna í ár en var rúmlega 1,4 milljarðar á sama tíma í fyrra. Er aukningin því 488 milljónir króna en kostnaðurinn er á innkaupsverði með álagi vegna lyfjaseðla. Þetta kemur fram í nýjum starfsemisupplýsingum LSH.

Á fyrstu átta mánuðum ársins fjölgaði þeim einstaklingum sem leituðu til LSH um 5,9% en legudögum fækkaði um 6,4%. 

Segir í riti um starfsemi LSH að starfsemi sumarsins 2008 gekk í heildina vel og að margra mati betur en oft áður. „Kom þar margt til. Undirbúningur að starfsemi sumarsins 2008 hófst á haustdögum 2007 þegar framkvæmdastjórn fól nefnd um stýrt flæði að gera tillögur að starfsemi komandi sumars með hliðsjón af fyrirliggjandi upplýsingum um starfsemi sumarsins 2007. Sumarið 2007 var erfitt, annars vegar vegna samdráttar í rúmum og manneklu og hins vegar vegna fjölda sjúklinga sem biðu á bráðadeildunum eftir öðrum úræðum," að því er segir í ritinu.

„Tillögur nefndarinnar fólu í sér nokkrar veigamiklar áherslubreytingar. Lagt var til að engin samdráttur yrði í 7 daga legurýmum á öldrunarsviði og að minna yrði dregið saman á legurýmum á endurhæfingarsviði en árin á undan. Markmiðið var að fækka flöskuhálsum í flæði sjúklinga frá bráðadeildum í endurhæfingu. Þegar upp er staðið var talsvert minni samdráttur í legurýmum síðastliðið sumar en þekkst hefur undanfarin sumur.

Aukning var á komum á bráðamóttökur og innlögnum fjölgaði.Meðallegutími hefur styst talsvert sem sýnir að flæði sjúklinga var nokkuð greitt, að því undanskildu að stundum reynist erfitt að leggja sjúklinga frá bráðamóttöku við Hringbraut inn á legudeildir þar vegna samdráttar á rúmum.

Fleiri atriði vega þungt þegar horft er yfir starfsemi sumarsins. Betur gekkað ráða starfsfólk til sumarafleysinga en oft áður bæði faglært og ófaglært. Mjög gott skipulag í innlögnum og útskriftum svo og minni samdráttur í 7 daga legurými hafði umtalsverð áhrif til að bæta flæði sjúklinga. Talsvert færri sjúklingar biðu á bráðadeildum spítalans. Samkomulag var gert í byrjun árs um samstarf við sjúkrahúsin á suðvesturlandi m.a. um útskriftir sjúklinga í heimabyggð."

Sjá nánari upplýsingar um starfsemi LSH 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert