„Leiður yfir því hvernig komið var fram við okkur“

Jón Ásgeir Jóhannesson
Jón Ásgeir Jóhannesson Ómar Óskarsson

„Ég tel að Stoðir verði ekki gjaldþrota. Félagið hefur orðið fyrir miklu höggi í kjölfar grimmra aðgerða Seðlabanka Íslands gagnvart Glitni. Við munum nú nota tímann til að endurskipuleggja reksturinn og bregðast við breyttum aðstæðum,“ segir Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Baugs.

Vegna þeirrar ákvörðunar Seðlabankans að kaupa 75% eignarhlut í Glitni rýrnaði verðmæti hluthafa í bankanum um rúma 200 milljarða króna. Þar af rýrnaði hlutur Stoða, sem áður hétu FL Group, um 60 milljarða króna. Fullyrtu margir í gær að þessi ákvörðun myndi gera út af við Stoðir og hafa afdrifaríkar afleiðingar fyrir Baug í kjölfarið, sem stærsta hluthafa í Stoðum.

Jón Ásgeir viðurkennir að það myndi hafa slæm áhrif á Baug og fleiri fjárfesta ef Stoðir yrðu gjaldþrota. Hins vegar veiti greiðslustöðvun eigendum ráðrúm til aðgerða. Hann telur mögulegt að leggja fram fullnægjandi tryggingar fyrir lánum sem notuð voru til að fjármagna kaup á hlutabréfum í Glitni, sem nú hafa hrunið í verði. Til þess verði notaðar eignir sem enn séu ekki veðsettar.

Hann bendir á að ástandið í heiminum nú um stundir sé háð gríðarlegri óvissu og óvarlegt að fullyrða um nokkurn skapaðan hlut.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins var Jón Ásgeir meyr á fundi með starfsfólki Stoða í gærmorgun. Aðspurður segir hann: „Ég var leiður yfir því hvernig komið var fram við okkur.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert