65 milljóna sekt vegna samkeppnisbrota staðfest

Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli, sem Árdegi hf., sem rekur Skífuna, höfðaði gegn Samkeppniseftirlitinu. Stofnunin komst að þeirri niðurstöðu að Árdegi skyldi greiða 65 milljónir króna í stjórnvaldssekt fyrir brot gegn samkeppnislögum og hafa bæði hérðasdómur og Hæstiréttur staðfest það.

Málið á sér nokkuð langan aðdraganda og er ekki það fyrsta sem Skífan hefur höfðað á hendur samkeppnisyfirvöldum. Í desember árið 2001 var Skífunni, með ákvörðun samkeppnisráðs, gert að greiða 25 milljónir króna í sekt vegna samnings sem gerður var við Aðföng ehf. um sölu á geisladiskum í verslunum Baugs. 

Fram kemur í dómi Hæstaréttar, að Árdegi hafi gert tvo samninga við Hagkaup í apríl 2003 og september 2004 um sölu á tónlistargeisladiskum, kvikmyndum og tölvuleikjum. Var í samningunum m.a. kveðið á um að hillupláss og vöruúrval Árdegis í verslunum Hagkaupa skyldi vera í samræmi við markaðshlutdeild hans. Þá skyldu Hagkaup fá stighækkandi afslátt næðu viðskipti félagsins tiltekinni fjárhæð á tilteknum tíma.

Samkeppniseftirlitið komst að þeirri niðurstöðu í júní 2006  að með samningunum hefði félagið brotið gegn samkeppnislögum. Var Árdegi gert að greiða 65 milljónir króna í sekt. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála staðfesti úrskurðinn og einnig héraðsdómur og Hæstiréttur.

Í niðurstöðu héraðsdóms var talið að ákvæði samninganna um framstillingu og hlutfalls vöruúrvals í afþreyingarvörum væru til þess fallin að hindra virka samkeppni og að afsláttarkerfið hefði enn fremur verið til þess fallið að útiloka aðra aðila frá viðskiptum við Hagkaup.  Ekki var fallist á það með Árdegi að brotavilja hefði skort af hálfu félagsins. Hefðu brotin verið fullframin við gerð samninganna og skipti þá engu máli þótt einstök ákvæði þeirra hefðu ekki komist til framkvæmda.

Við ákvörðun sektar var litið til þess að brotin voru umfangsmikil, alvarleg og stóðu lengi. Þá yrði ekki framhjá því litið að félaginu hefði áður verið gerð sekt vegna sambærilegra brota og yrði ekki séð að það hefði haft áhrif til varnaðar frekari brotum félagsins. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert