Bankarnir verða að selja eignir erlendis

Eiríkur Jónsson formaður Kennarasambands Íslands.
Eiríkur Jónsson formaður Kennarasambands Íslands. mbl.is

„Forsenda fyrir okkar aðkomu að þessu máli er að bankarnir selji hluta eigna sinna erlendis," segir Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands. Hann segir að það sé forgangsmál að lækka skuldir þjóðarbúsins erlendis og það sé ekki nóg að lífeyrissjóðirnir flytji heim fjármuni. Bankarnir verði að gera það líka.

Eiríkur situr í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, en lífeyrissjóðirnir hafa kynnt fyrir ríkisstjórninni tillögu um að selja eignir sjóðanna erlendis fyrir um 200 milljarða og flytja þá heim. Hugmyndin er að ávaxta þessa fjármuni í ríkistryggðum skuldabréfum.

Forysta Kennarasambandsins kom saman til fundar í dag þar sem farið var yfir stöðuna. Eiríkur segir að rætt hafi verið við forystumenn ASÍ um framlengingu kjarasamninga. Hann segir ekkert liggja fyrir um hvernig staðið verður að þeim málum. „En ég geri ráð fyrir að vinna við kjarasamninga verði með óhefðbundnum hætti við þessar erfiðu aðstæður," sagði Eiríkur og bætti við að ekki væri um neinn ágreining milli ASÍ og opinberra starfsmanna í kjaramálum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert