Verða að fallast á skilyrði sjóðanna

Guðmundur Gunnarsson, formaður RSÍ.
Guðmundur Gunnarsson, formaður RSÍ. mbl.is

„Við erum að harðna í þeirri afstöðu að ríkisstjórnin verði að fallast í einu og öllu á þau skilyrði sem lífeyrissjóðirnir settu fyrir því að flytja heim fjármuni," segir Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambandsins. Hann segir kurr meðal sjóðsfélaga sem vilji að tekið verði á bönkunum.

Guðmundur segist ekki geta rætt þessi skilyrði í smáatriðum, en nefnir þó að stjórnvöld verði að taka fast á bönkunum og gera kröfu til þeirra um að selja eignir. Guðmundur segist ekki taka mark á tali forsvarsmanna bankanna að það séu óhagstæður tími fyrir bankana að selja eignir.

„Það gildir nákvæmlega sama um lífeyrissjóðina. Þeir eiga eignir erlendis sem eru að skila góðri ávöxtun. Nú er verið að fara fram á að þær verði seldar og fluttar heim í þá óvissu sem hér er. Við þær aðstæður verða bankarnir að taka þátt í þessu," sagði Guðmundur.

Hann segir að margir sjóðsfélagar hafi látið heyra í sér og tónninn í þeim sé sá, að ef það sé verið að gera þessa kröfu til lífeyrissjóðanna sé ekki nema sjálfsagt og eðlilegt að bankarnir selji eignir erlendis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert