„Við erum nú einu sinni víkingar"

Staðhæft er í grein sem birtist í breska blaðinu Sunday Telegrah í dag að íslenska þjóðin sem „þekkt sé fyrir þrautseigju og yfirvegun” sé nú að fara á taugum vegna efnahagsástandsins. Þá segir að Íslendingar séu farnir að kaupa sér frystikistur til að geta fyllt þær af mat.

Í greininni, sem er eftir Rowenu Mason, er fjallað sérstaklega um stöðu  Kaupþings og hugsanlegar afleiðingar efnahagskreppunnar á bankann og viðskiptavini hans í Bretlandi. Þar segir að 150.000 Bretar eigi reikninga hjá bankanum auk þess sem hann eigi hluti í nokkrum stórum fyrirtækjum í Bretlandi og þjóni stórum verslunarkeðjum á borð við House of Fraser, Debenhams, Woolworths, Hamleys, Whittards of Chelsea og Karen Millen. Mason segir að bresk yfirvöld tryggi innistæður breskra sparifjáreigenda í bankanum en að Íslendingar flykkist nú á fjórhjóladrifnu jeppunum sínum í bankann til að athuga hvort peningarnir þeirra séu þar enn.

Þá er haft eftir ónefndum verslunareiganda að um sé að ræða hræðilegt klúður sem yfirvöld hafi komið þjóðinni í og að fólk óttist jafnvel að ástandið á Íslandi verði eins og í  þriðja heims ríki. Sjálfur trúi hann hins vegar á að Íslendingar muni komast upp úr þessum öldudal vegna frumkvöðlaeðlis þeirra.

„Við höfum fiskinn, við höfum skipin og við höfum sterkt fólk,” segir hann. „Við munum fara að kaupa aftur því við njótum þess að eiga viðskipt við umheiminn, kannski vegna þess hversu lítil við erum og langt í burtu frá öllum öðrum. Við erum nú einu sinni víkingar. Við erum ævintýragjörn þjóð sem horfum alltaf á björtu hliðar lífsins.” 

Grein Sunday Telegraph 


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert