Stjórnvöld hafa tekið framferði Breta gagnvart Íslandi upp á vettvangi Atlantshafsbandalagsins og kvartað yfir því að hryðjuverkalögum skyldi beitt gegn íslenskum fyrirtækjum. Þetta kom fram í máli Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, við lok umræðu um efnahagsmál á Alþingi. Sagði hann jafnframt að þessu yrði fylgt eftir.
Í umræðunum minntust sumir þingmenn á mistök sem gerð hefðu verið í öllum eftirmálanum af hruni bankanna. Geir sagði að það hefði verið mjög undarlegt að takast á við svona erfiðleika án þess að gera nokkur mistök. Hins vegar hefði verið sama til hvaða ráða hefði verið gripið hér á landi, varla hefði verið hægt að afstýra þroti bankanna. „Ég tel að sú leið sem við fórum og sem Alþingi samþykkti hafi verið sú rétta,“ sagði Geir og áréttaði að nú væri unnið að því á öllum vígstöðvum að koma málum í heila höfn.
Geir tók undir með formanni Framsóknarflokksins að verjast þyrfti hrægömmum, innanlands og utan. Þannig þyrfti að verja þær eignir bankanna sem eftir eru og nýta þær með sem skynsamlegustum hætti til að standa skil á skuldum og innistæðum og til áframhaldandi uppbyggingar.