Nauðvörn að leita til IMF

Guðni Ágústsson.
Guðni Ágústsson. mbl.is/G.Rúnar

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, telur að ríkisstjórnin hafi ekki átt neina aðra leið við núverandi aðstæður en að leita á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þetta sé nauðvörn, en geti vonandi skapað okkur sóknarleið ef vel gengur að semja við sjóðinn.

Hann segir að Bretar hafi skotið okkur niður með árás sinni á efnahagskerfi Íslands og staðan nú sé afleiðing þess að ummæli Gordon Brown um að við værum gjaldþrota þjóð hafi í raun ekki leiðrétts. „Íslenska ríkisstjórnin brást ekki við eins og hún átti að gera af fullri einurð og hörku gagnvart Bretum og ég held að við það hafi allar dyr lokast á aðstoð þeirra þjóða sem þó voru líklegar til þess.“

„Þess vegna segi ég nú að þessar vikur í október hafa verið langar í okkar sögu og ríkisstjórnin á enga aðra leið núna við þessar aðstæður.“ Guðni segist vongóður um framhaldið þótt ástæða sé til að hafa áhyggjur af þeim skilyrðum sem sjóðurinn geti sett okkur í samningaviðræðum.

„Það er þekkt hjá þessum sjóði að vera mjög frjálshyggjusinnaður í sínum efnahagstillögum og ég óttast það mjög ef krafa sjóðsins verður að keyra vextina upp á nýjan leik. Hér er ekki nein eftirspurnarverðbólga heldur er hér allt að frjósa fast og við þurfum eins og aðrar þjóðir að lækka vextina sem hraðast.“

„En þetta verður auðvitað að koma í ljós og mér er sagt að þeir hafi ekki sett óásættanleg skilyrði á flestum sviðum. Vonandi opnast okkur við þetta dyr á nýjan leik þannig að okkar vináttuþjóðir og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn geti sagt, eins og hann hefur stundum sagt, að Íslendingar eigi glæst tækifæri og öfundsverð.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert