Ekki allt kolsvart á Íslandi

Martin Skancke.
Martin Skancke. mbl.is/hag

Norski embættismaðurinn Martin Skancke, sem fór fyrir norskri sendinefnd í Íslandsheimsókn í síðustu viku, segir við Aftenposten, að þótt staðan sé erfið í íslenskum efnahagsmálum sé ekki allt kolsvart. 

„Íslendingar upplifa stöðuna sem alvarlega og margir hafa tapað sparifé. En fjármál ríkisins eru í góðu ásigkomulagi," segir Skancke og vísar til þess að það sé afgangur af rekstri ríkisins og atvinnuleysi sé lítið.

Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, sagði við norska fjölmiðla í gær áður en hann hélt á fund Norðurlandaráðs í Helsinki í Finnlandi, að mikivægt væri að framlengja og auka þann aðgang, sem Ísland hefur hjá norska seðlabankanum. Gjaldeyrisskiptasamningur, sem seðlabankar landanna gerðu í maí, rennur að óbreyttu út um áramót.  

Stoltenberg segir að það hafi verið mun heppilegri niðurstaða að Ísland fékk lán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum en að Rússar hefðu veitt lán, eins og rætt hefur verið um.

„Ég tel að það sé mun betri lausn að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn geri samning sem geti verið grundvöllur sem norrænu löndin byggja á. Það er mun traustara og betra en að eitt land veiti allt lánið," segir Stoltenberg við Aftenposten og undirstrikar mikilvægi norrænnar samvinnu.

Skancke segir, að íslenski seðlabankinn þurfi að byggja upp trúverðugleika og því megi búiast við að norski seðlabankinn geri nýja gjaldeyrisskiptasamninga við íslenska bankann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert