Bjarni íhugi stöðu sína

Valgerður á þingi
Valgerður á þingi Brynjar Gauti

„Bréfið frá Skagfirðingunum er mál út af fyrir sig og að sjálfstöðu er mönnum heimilt að senda svona bréf til forystumanna flokksins séu þeir þessarar skoðunar sem þarna kemur fram. En það sem er miklu alvarlegra en það er að einn af þingmönnum Framsóknarflokksins skuli nota þetta bréf gegn mér og ætla að senda það nafnlaust á alla fjölmiðla,“ segir Valgerður Sverrisdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins.

Valgerður segir Bjarna Harðarson, þingmann flokksins, þurfa að gera upp við samvisku sína á þessari stundu hvort að hann treysti sér til að sitja áfram á þingi fyrir Framsóknarflokkinn.  „Ég myndi ekki gera það,“ svarar hún. 

Bjarni sendi óvart bréf til fjölmiðla sem hann ætlaði að senda aðstoðarmanni sínum, þar sem Bjarni bað hann að senda bréf tveggja Skagfirðinga, sem gagnrýna Valgerði fyrir að standa að sölu bankanna, nafnlaust á fjölmiðla. 

„Ég túlka bónina sem mjög óheiðarleg vinnubrögð gagnvart samherja og gagnvart Framsóknarflokknum. Vinnubrögðin eru forkastanleg,“ segir Valgerður. Spurð hvort þau hafi komið henni á óvart svarar hún játandi.

 „Já, þetta kom mér á óvart og er miklu grófara en ég hef séð áður og hefur ýmislegt sést innan flokksins á undanförnum árum, því miður.“

Miðstjórnarfundur Framsóknarflokksins er um helgina og telur Valgerður vegið að sér fyrir þann fund. „Ég leyfi mér að álykta sem svo að þetta tengist fundinum um helgina.“ Spurð hvort vegið sé að hugsanlegu framboði hennar til formanns fyrir flokkþingið í mars, segir Valgerður:

„Ég hef ekki gert upp við mig hvort það komi til greina að bjóða mig fram sem formaður. En ég neita því ekki að ég hef fengið áskoranir í þá átt. Of langt er í flokksþing og hlutnirnir gerast svo hratt að ekki er kominn tími til að taka ákvarðanir í því sambandi.“

Valgerður og Bjarni hafa ekki rætt saman eftir að hann sendi bréfið. Hún reiknar ekki með að hann hringi. „Ég hef hins vegar fengið marga tölvupósta og stuðningsyfirlýsingar. Félög hafa ályktað og fleiri ályktanir eru væntanlegar. Ég veit um stjórnir víða um land sem ætla að koma saman í dag.“

Valgerður telur ekki líkur á að flokkurinn klofni vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert