Heilsuverndarstöðin í þrot

Heilsuverndarstöðin er gjaldþrota og hefur óskað eftir því að hætta starfsemi. Fimmtíu aldraðir skjólstæðingar sem voru undir verndarvæng fyrirtækisins hafa nú fengið inni annars staðar.

Heilsuverndarstöðin rak dagdeild og legudeild fyrir samtals um fimmtíu skjólstæðinga í kjölfar útboðs hjá Heilbrigðisráðuneytinu. Þetta var tilraunaverkefni sem átti að hjálpa öldruðum að búa heima.

Helga Hansdóttir hætti sem yfirlæknir á öldrunardeild Landspítalans á Landakoti til að starfa við þessa nýju stofnun. Hún segir þyngra en tárum taki að hverfa frá því núna. Reynt var að koma starfseminni undir hatt sjálfseignarstofnunar í Reykjavík en það strandaði á samningum við húseiganda. Hún segir að auðvitað komi röskun illa við skjólstæðinga en öryggi þeirra sé ekki ógnað á neinn hátt.  

Ýmis heilsutengd starfsemi er í Heilsuverndarstöðinni. Þeir sem standa fyrir henni voru leigutakar Heilsuverndarstöðvarinnar og er því á götunni með sína starfsemi..  Heilsuverndarstöðin hefur róið lífróður og átt við rekstrarvanda að stríða meðal annars vegna kostnaðar við endurbætur á húseigninni við Barónsstíg 47.  

Gestur Pétursson framkvæmdastjóri fyrirtækisins segir þetta dapurlega niðurstöðu fyrir alla en á fjórða tug starfsmanna störfuðu hjá fyrirtækinu.  Í byrjun september hafi verið útlit fyrir að nýtt fjármagn kæmi inn í félagið  en vegna þess hvernig veður skipuðust í lofti á fjármálamarkaði hafi fjárfestar orðið frá að hverfa.         

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert