Samfylkingin hefði allt eins getað slitið samstarfinu

Þorsteinn Pálsson.
Þorsteinn Pálsson.

Þorsteinn Pálsson, ritstjóri Fréttablaðsins, segir í leiðara blaðsins í dag að bankastjórn Seðlabankans hafi með Viðskiptaráðsræðunni á þriðjudag náð því markmiði að ákveða dagskrá pólitískrar umræðu. Samfylkingin hefði allt eins getað notað ræðuna til að slíta stjórnarsamstarfinu og því hefði bankastjórnin fagnað enda sé stjórnarandstaðan ekki líkleg til að vilja hrófla við bankastjórninni.

„Bankastjórnin sigraði í þessari lotu. Fróðlegt verður að sjá hvernig þeirri næstu lyktar," segir Þorsteinn.

Hann segir að það hafi ekki komið á óvart að bankastjórar Seðlabankans hafi freistað þess að hræra í þeirri pólitísku deiglu, sem nú kraumi.  Líta verði til þess, að bankastjórnin náði ekki fram þjóðstjórnarhugmynd sinni á dögunum og hafði farið halloka í átökum við ríkisstjórnina um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og samningana við Breta. Henni hafi væntanlega þótt skörin vera farin að færast upp í bekkinn þegar Evrópuumræðan var boðuð í þau kaup.

„Markmið bankastjórnarinnar með Viðskiptaráðsræðunni sýnist hafa verið tvíþætt. Annars vegar að þvo hendur sínar. Hins vegar að sýna að hún getur ákveðið dagskrá pólitískrar umræðu. Seinna markmiðið náðist. Ríkisstjórnin komst í vörn.

Til marks um þann árangur er sá sterki stuðningur sem bankastjórnin fékk frá talsmönnum stjórnarandstöðuflokkanna. Honum fylgdi viðurkenning á málefnalegri röksemdafærslu. Óhjákvæmileg gagnrýni sérfræðinga á hvítþvottinum gat verið eðlilegur fórnarkostnaður til að ná þessu pólitíska markmiði.

Við slíkar aðstæður er stjórnarandstaðan ekki líkleg til að vilja hrófla við bankastjórninni. Samfylkingin hefði allt eins getað notað ræðuna til að slíta stjórnarsamstarfinu.  Bankastjórnin hefði fagnað því. Þá hefði sannast það sem þeir, er næst henni standa, vöruðu við í upphafi. Það hefði einnig getað leitt til kosninga í janúar. Þannig hefði mátt tefja Evrópuumræðuna.

Stjórnarflokkarnir ræða nú sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins. Sikileyjarvörn bankastjórnarinnar gæti hins vegart hafa verið teflt fram gegn þeim möguleika, að áform af því tagi breyti stöðu hennar. Bankastjórnin sigraði þessa lotu. Fróðlegt verður að sjá hvernig þeirri næstu lyktar," segir Þorsteinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert