Mörg dæmi um árekstra hvala og skipa

Vestmannaferjan Herjólfur
Vestmannaferjan Herjólfur

Á fundi Alþjóðahvalveiðiráðsins í apríl voru lagðar fram upplýsingar um 763 tilvik þar sem hvalir höfðu orðið fyrir skipum. Mikil aukning slíkra tilvika hefur orðið eftir miðja síðustu öld og virðist fara annars vegar saman við aukinn hraða skipa sem og aukningu siglinga.

Vangaveltur eru um, að Vestmannaeyjaferjan Herjólfur hafi rekist á hval á leiðinni milli lands og Eyja nýlega með þeim afleiðingum að annar jafnvægisuggi skipsins eyðilagðist. Dauða langreyði rak nokkru síðar upp í Reynisfjöru. 

Á vegum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar er hafin vinna við leiðbeiningar sem miða að því að draga úr líkum og áhættu af árekstrum skipa og hvala. Meðal annars er til skoðuna að þjóðir kortleggi hvernig siglingaleiðir skipa falli saman við útbreiðslusvæði hvala, ekki síst um svæði þar sem þekkt er að hvalir safnast saman á vissum tíma árs. Einnig er bent á mikilvægi þess að upplýsingum um dvalarsvæði hvala sé komið á framfæri við útgerðir og skipsstjórnendur, hugsanlega á sjókortum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert