Búa sig undir íslenska „innrás"

Frá Ósló.
Frá Ósló. mbl.is/Golli

Norðmenn búa sig nú undir, að fjöldi Íslendinga komi til Noregs í leit að atvinnu. Norski viðskiptavefurinn e24.no hefur eftir Íslendingum, sem hugsa sér til hreyfings, að Noregur sé efstur á óskalista þeirra sem ætli að flytja frá Íslandi og freista gæfunnar annarstaðar.

„1200 árum eftir að víkingurinn Ingólfur Arnarson yfirgaf Noreg til að stofna Reykjavík leiðir fjármálakreppan afkomendur hans aftur til Noregs," segir vefurinn.

„Það er engin atvinna hér og ég verð að flytja til Noregs þar sem ég hef heyrt að sé hægt að fá vinnu," hefur fréttastofan Bloomberg eftir Baldvin Kristjanssyni, bátasmið.

Spáð er allt að 7% atvinnuleysi í byrjun næsta árs, sem eru mikil umskipti eftir að atvinnuleysi hefur mælst 1% síðasta misserið og 1,9% í október.

E24 hefur eftir Valdimar Ólafssyni, starfsmanni Evrópskrar vinnumiðlunar í Reykjavík, að atvinnulausum hafi fjölgað mikið síðustu vikur. Hann segist ekki vera í vafa um að Noregur sé efstur á óskalista þeirra, sem ætla að freista gæfunnar í öðrum löndum.

Á evrópskri starfakynningu í Reykjavík nýlega kom fram mikill áhugi á störfum í Noregi, að sögn Ragnhild Synstad, ráðgjafa, sem þar var. E24 segir, að tvö af þeim norsku fyrirtækjum, sem vilji ráða Íslendinga, séu tæknifyrirtækið Teknova og olíuvinnsluþjónustan Aibel. Þau þurfi ekki að óttast að fá ekki umsóknir. 

Eftir hádegið í gær var EES-vinnumiðlunin EURES með kynningu fyrir þá sem vilja athuga með vinnu í útlöndum. Dágóður hópur fólks var mættur og var fundarstofan nær fullsetin. Árni Steinar Stefánsson ráðgjafi annaðist kynninguna og hafði orð á því við Morgunblaðið hve miklu fleiri væru mættir en á undanfarna kynningarfundi. Hann sagði 80-90% þeirra sem vildu leita vinnu í útlöndum horfa til Norðurlandanna, aðallega til Noregs og því næst til Danmerkur.

Frétt E24

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert