Vilja Íslendinga í vinnu frekar en Norðmenn

Mörg norsk fyrirtæki eru áhugasamari að ráða Íslendinga í vinnu en Norðmenn sökum dugnaðar og þess hve lítið þeir eru frá störfum vegna veikinda. Þetta kemur fram á norska vefmiðlinum E24 og er haft eftir Ragnhild Synstad, ráðgjafa hjá atvinnu- og félagsmálastofnuninni Nav sem rekin er af norska ríkinu og sveitarfélögunum. 

Synstad er sögð nýkomin frá Íslandi þar sem hún kannaði áhuga Íslendinga á því að koma til starfa í Noregi. „Áhuginn er mikill sem er mjög jákvætt fyrir okkur,“ segir hún.

Þess er reyndar getið á vefmiðlinum að atvinnuleysi aukist í Noregi og gert sé ráð fyrir því að það tvöfaldist á næsta ári miðað við það sem senn rennur sitt skeið. Samt sem áður skorti vinnuafl í ákveðnum greinum og mikilvægasta verkefni stofnunarinnar sé að finna góðan starfskraft handa fyrirtækjum – ekki endilega að finna Norðmenn í störfin.

„Það er ekki markmið okkar að leita að norskum starfsmönnum fyrst. Sæki þeir ekki um þau störf sem eru laus, eða standist ekki hæfniskröfur, þá verðum við hjá Nav og öðrum norskum fyrirtækjum að horfa út fyrir landsteinana,“ segir Synstad. Hún segir raunar ljóst að í ákveðnum greinum þurfi norsk fyrirtæki á erlendum starfskröftum að halda og þá skipti tungumál sköpum – „margir Íslendingar tala skandinavsíku og það er auðvelt fyrir þá að læra norsku. Það skiptir vinnuveitendur gríðarlegu máli.“

Synstad segir aðspurð að norskir vinnuveitendur hafi samúð með Íslendingum eins og nú er ástatt hér á Fróni, vegna tengsla þjóðanna. „Íslendingar eru bræður okkar og Norðmenn taka það nærri sér sem gerðist á Íslandi, vegna þess að það hefði auðveldlega getað gerst hjá okkur,“ segir hún.

Norðmenn hafa löngum sótt vinnuafl til Svíþjóðar og Danmerkur en Synstad segir að sá brunnur sé að öllum líkindum tæmdur. Hún bendir samt á að Norðmenn verði að varast að „tæma“ íslenska vinnumarkaðinn, segir Íslendinga óttast að unga fólkið flytji burt í stórum stíl og Norðmenn megi ekki stuðla að því; það sé í raun meira áhyggjuefni fyrir Norðmenn að svo verði ekki en að einhverjir Íslendingar komi utan og hirði störfin af heimamönnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert