Tveggja ára fangelsi fyrir amfetamínsmygl

mbl.is/ÞÖK

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í morgun Andra Þór Eyjólfsson í tveggja ára fangelsi fyrir stórfellt fíkniefnasmygl. Andri Þór reyndi að smygla tæplega þremur kílóum af amfetamíni til landsins í apríl í fyrra. Andri Þór tók að sér að flytja fíkniefnin til landsins gegn niðurfellingu skuldar vegna kaupa hans á fíkniefnum.

Andri Þór kom til Keflavíkur­flug­vallar með flugi FI-543 frá París mánudaginn 7. apríl 2008. Samkvæmt frumskýrslu tollvarða var hann kominn að tollhliði sem er ætlað þeim sem ekki hafa tollskyldan varning meðferðis þegar fíkniefnahundur gaf til kynna að hann hefði fíkniefni meðferðis eða hefði komist í tæri við þau. Maðruinn hafði meðferðis eina ferðatösku og eina handtösku. Hann var færður til skoðunar í leitarklefa tollgæslunnar þar sem leitað var í farangri hans. Við gegnumlýsingu á ferðatöskunni vaknaði grunur um að hún innihéldi fíkniefni, en í ljós kom pakki sem komið hafði verið fyrir undir fölskum botni í ferðatöskunni.

Maðurinn gekkst strax við því að fíkniefni væru í ferðatöskunni. Sennilega væri um amfetamín að ræða, 1400 til 1800 grömm. Hann skýrði svo frá að hann hefði tekið að sér að flytja fíkniefnin hingað til lands fyrir aðila sem hann vildi ekki nafngreina og að hann hafi með því verið að greiða upp fíkniefnaskuld.

Tveir pakkar með hvítu dufti fundust í töskunni. Við rannsókn kom í ljós að um amfetamín var að ræða, samtals 2.966,24 grömm.

Maðurinn játaði að hafa gerst sekur um smyglið. Hann tók þó fram að hann taldi að einungis væri um 1400 til 1800 grömm af amfetamíni að ræða og að ekki hafi staðið til að hann kæmi að dreifingu efnanna hér á landi, hann hafi eingöngu séð um að flytja þau til landsins.

Í skýrslu sinni fyrir dómi sagði maðurinn að hann hafi staðið í um það bil 800.000 króna skuld vegna kaupa á fíkniefnum og ekki átt peninga til að borga hana. Hefðu hann og fjölskylda hans sætt hótunum af þessum sökum. Annar þeirra aðila sem hann skuldaði hafi síðan boðið honum upp á þann kost að hann gæti fengið skuldina fellda niður ef hann tæki að sér að flytja fíkniefni til landsins. Hafi honum verið tjáð af þessum aðila að um 1400 til 1800 grömm af amfetamíni væri að ræða. Hafi hann ekki séð sér annað fært en að fallast á þetta. Hann hafi fengið peninga fyrir farseðli og um það bil 20.000 krónur til að kaupa gjaldeyri.

Andri Þór var tæplega 21 árs þegar hann var handtekinn fyrir afmetamínsmyglið. Hann á nokkurn sakaferil að baki. Með dómi 19. desember 2006 var hann sakfelldur fyrir fjögur þjófnaðarbrot, umboðssvik, gripdeild, heimildarlausa töku bifreiðar í fjögur skipti, brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni og fyrir að hafa í sjö skipti ekið bifreið sviptur ökurétti. Þessi brot framdi hann á tímabilinu 23. júní til 1. október 2006. Var honum gert að sæta fangelsi í 20 mánuði, en með þeim dómi var dæmd upp 12 mánaða skilorðsbundin fangelsisrefsing sem hann hlaut 13. febrúar 2006 fyrir nokkur þjófnaðarbrot, stórfelld eignaspjöll og fíkniefnabrot. Þann 24. september 2007 var honum veitt skilorðsbundin reynslulausn í tvö ár á óafplánuðum 300 daga eftirstöðvum refsingarinnar. Hann rauf skilyrði þeirrar reynslulausnar með því að aka bifreið undir áhrifum ávana- og fíkniefna 11. og 19. október og 5. nóvember 2007. Dómur vegna þeirra brota gekk 17. apríl 2008 og var refsing hans ákveðin í einu lagi með hliðsjón af þeirri refsingu sem hann átti óafplánaða. Var gert gert að sæta fangelsi í 11 mánuði og hóf hann þegar afplánun þeirrar refsingar. Þessu til viðbótar var Andra Þór með dómi 7. júní 2006 gerð sektarrefsing fyrir fíkniefnabrot og 12. apríl sama ár gekkst hann undir greiðslu sektar fyrir slíkt brot. Loks var hann með dómi 21. september 2007 sakfelldur fyrir þjófnað, fjársvik, nytjastuld og eignaspjöll, en ekki gerð sérstök refsing.

Í ljósi þessa þótti dómara hæfileg refsing tveggja ára fangelsi. Til frádráttar þeirri refsingu kemur gæsluvarðhald sem Andri Þór sætti frá 8. til 17. apríl 2008.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert