Jóhann Óli: „Þjóðin er þjáð"

Jóhann Óli Guðmundsson
Jóhann Óli Guðmundsson


 Jóhann Óli Guðmundsson, fulltrúi Capital Plaza sem fer með 49% hlut í Tali, hefur sent frá sér yfirlýsingu undir fyrirsögninni „Þjóðin er þjáð". Segir í yfirlýsingunni að hann vonist til þess að Tal verði frelsað úr ógnarklóm Teymis og Vodafone sem allra fyrst svo félagið geti orðið þjóðinni öflugur lággjalda þjónustuaðili í því kreppuástandi sem hún er að fást við um þessar mundir.

„Yfirlýsing frá Jóhanni Óla Guðmundssyni
Þjóðin er þjáð

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum að undanförnu hef ég haft verulegar áhyggjur af háttsemi fulltrúa Teymis í stjórn Tals gagnvart hagsmunum og sjálfstæði Tals á fjarskiptamarkaði. Það er staðföst skoðun mín að með endurteknum hætti hafi þetta fólk brotið gegn samkeppnislögum og þeim skilyrðum Samkeppniseftirlitsins sem Teymi voru sett fyrir því að mega eiga 51% í Tali á sama tíma og félagið átti 100% í Vodafone.
 
Þegar fyrir lá að Vodafone bauð lausn á reikivandamálum Tals, sem að mati forstjóra félagsins stæðust ekki lög um eðlilega viðskiptahætti, fór hann til fundar við Póst- og fjarskiptastofnun til að leita eftir frekari lausnum í samráði við þá. Stofnunin hvatti hann til að til að leita formlegra tilboða frá bæði Vodafone og Símanum til lausnar vandamálinu.  Að sögn forstjóra kom Vodafone hins vegar ekki með aðra lausn á málinu en að Tal afsalaði sér númeraseríum sínum til Vodafone og yrði þannig eins konar áskriftarborð fyrir Vodafone en ekki sjálfstætt félag á samkeppnismarkaði. Tilboð Símans reyndist afar hagstætt fyrir Tal.  Það tryggði Tali m.a. betri taxtakjör en Vodafone hafði boðið, það tryggði einnig lausn sem uppfyllti allar laga- og reglugerðarkröfur og það sem meira var: það tryggði fullkomið sjálfstæði Tals á íslenskum samkeppnismarkaði og óheft leyfi til að eiga frjáls og óháð viðskipti við aðra aðila en Símann á sama tíma.  Vodafone hafði gert kröfur um hið gagnstæða.
 
Rétt er að það komi fram hér að Tal hafði tryggt sér að verð Vodafone yrðu ekki hækkuð fyrr en eftir september 2009 en Vodafone sveik það ákvæði og hefur tilkynnt frekari hækkanir strax janúar 2009 og svo aftur í haust. Það sjá allir sem vilja að hækkun á þjónustu sem þessari er síst það sem þjóðin þarf á að halda um þessar mundir. Þjóðin er öll er í sárum vegna háttsemi þessara manna og  annarra og sér sjálf í gegnum samhengi hlutanna.  Teymi og Vodafone verða að horfast í augu við að þjóðin er þjáð og lætur ekki bjóða sér meiri blekkingar.  Að því leytinu tel ég að afskipti Samkeppniseftirlits verði til góðs fyrir Tal og viðskiptavini þess. 
 
Ég vona að Tal verði frelsað úr ógnarklóm Teymis og Vodafone sem allra fyrst svo félagið geti orðið þjóðinni öflugur lággjalda þjónustuaðili í því kreppuástandi sem hún er að fást við um þessar mundir," að því er segir í yfirlýsingu Jóhanns Óla Guðmundssonar.
 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert