Ótengdur útrásarfyrirtækjunum

mbl.is

„Þarna er mjög stórt verkefni sem þarf að vinna," segir Ólafur Þór Hauksson, nýskipaður sérstakur saksóknari í málefnum bankahrunsins og aðdraganda þess. ,,Ég fæ ekki betur séð en að með setningu sérstakra laga og kröfunni úr samfélaginu sé þess krafist að farið verði í þessa rannsókn og kannað hvort menn hafi brotið lög svo refsing eigi að koma til. Það verður bara að hafa framgang,“ segir Ólafur Þór.

Hann var eini umsækjandinn um starfið sem metinn var hæfur, þó umsóknarfrestur hafi verið framlengdur, fram til sl. mánudags. ,,Lítill fjöldi umsækjenda ræðst líklega af því að þetta er tímabundin skipun. Það er ekki verið að fara inn í neitt mótað verklag og þarf að byggja þetta alveg upp frá grunni. Það kann vel að vera að það hafi vaxið mönnum í augum," segir hann.

En af hverju sótti hann þá um starfið? ,,Mér var gert kleift að hverfa tímabundið frá embættinu mínu og á því afturkvæmt til þess. Svo hef ég sótt um embætti ríkissaksóknara áður. Ég hef því verið að gefa það til kynna að ég sé tilbúinn til að taka að mér fjölbreytt verkefni. Þess vegna fannst mér þetta koma til álita. Svo dreg ég ekki dul á að ég fékk hvatningu úr stjórnarráðinu og var bent á þann möguleika að ég gæti tímabundið fengið leyfi frá embætti sýslumanns."

Ekki er hægt að sleppa því að spyrja um persónuleg tengsl Ólafs við útrásarvíkinga og stjórnendur fjármálafyrirtækja. Hann vísar í lögin frá því í desember, um þetta nýja embætti. ,,Þar er algert nýmæli að umsækjandi verði að gefa þessar upplýsingar upp og þær séu opinberar. Því er til að svara að af systkinum og foreldrum hefur enginn starfað í bönkum eða fyrirtækjum tengdum þeim. Ég hef ekki sjálfur staðið í hlutabréfakaupum eða setið í stjórnum þessara fyrirtækja.  Ég er þeim algerlega ótengdur að því leyti," segir Ólafur Þór.

Hann útilokar hins vegar ekki að þegar lengra sé horft frá sér kunni vel að koma í ljós einhver tengsl við gömul bekkjarsystkini eða fjarskylda ættingja. Það sé ekki nema viðbúið í hinu fámenna íslenska samfélagi. Þá þurfi almennar vanhæfisreglur að gilda um hvert tilvik.

Ólafur Þór Hauksson.
Ólafur Þór Hauksson. mbl.is/Einar Falur
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert