Fundi ASÍ lauk án niðurstöðu

Gylfi Ásbjörnsson, forseti ASÍ á fundinum í dag.
Gylfi Ásbjörnsson, forseti ASÍ á fundinum í dag.

Eftir hádegið lauk formannafundi Alþýðusambandsins þar sem rædd var beiðni Samtaka atvinnulífsins um seinkun á framkvæmd ýmissa ákvæða núgildandi kjarasamnings vegna efnahagsástandsins, m.a. frestun á taxtabreytingum sem eiga að koma til framkvæmda 1. mars fram á sumar. Engin niðurstaða var af fundinum en stefnt að halda annan formannafund um miðjan febrúar.

Einnig var rætt að fresta viðræðum um endurskoðun kjarasamninga fram í júní og stjórnmálaástandið almennt. Var ríkisstjórnin gagnrýnd harðlega fyrir að daufheyrst við óskum verkalýðshreyfingarinnar, frá því snemma á síðasta ári, um virkt samráð vegna efnahagsástandsins, að því er fram kemur á vef ASÍ.

„Verkalýðshreyfingin krafðist einnig fordómalauss uppgjör á bankahruninu með aðkomu erlendra sérfræðinga, hún krafðist breytinga á ríkisstjórn, yfirstjórn Seðlabanka og Fjármálaeftirlits. Öllu þessu hafnaði ríkisstjórnin.

Umræður urðu líflegar en þó án niðurstöðu enda var þetta umræðufundur en ekki ákvarðanafundur. Inn á fundinn bárust fréttir af væntanlegum kosningum 9. maí sem gerir frestun á endurskoðun brýnni en ella enda nauðsynlegt að fá nýja ríkisstjórn með endurnýjað umboð að því borði.

Ákveðið var að halda annan formannafund um miðjan febrúar," að því er segir á vef ASÍ.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert