Veikindi orsök tveggja banaslysa

Rannsóknarnefnd umferðarslysa hefur lokið rannsókn tveggja banaslysa í umferðinni sem urðu á síðasta ári.

Fyrra slysið varð á Hrútafjarðarhálsi við Svertingsstaði í janúar 2008 þar sem eldri ökumaður ók í veg fyrir vörubifreið á vegamótum. Líkindi eru til að mati nefndarinnar að ökuhæfni þess sem fórst hafi verið skert verulega vegna heilabilunar.

Síðara slysið varð á Reykjavíkurvegi við Stakkahraun í mars 2008.  Orsök slyssins má rekja til þess að ökumaður sem fórst var vanhæfur til aksturs vegna veikinda og lyfjanotkunar þeim tengdum. Ók ökumaður í veg fyrir jeppabifreið á gatnamótum Reykjavíkurvegar og Stakkahrauns, að því er fram kemur á vef  Rannsóknarnefndar umferðarslysa.

Í nýlegri varnaðarskýrslu um skerta ökuhæfni vegna veikinda bendir RNU á að sjúklingar þurfi sjálfir að íhuga ökuhæfni sína af ábyrgð. Hvetur rannsóknarnefndin ökumenn, sem eru í áhættuhópi vegna veikinda eða lyfjanotkunar til að gangast undir skoðun á ökuhæfi sínu hjá læknum og stjórnvöldum.

 Að mati Rannsóknarnefndar umferðarslysa ber nauðsyn til að endurskoða reglur um mat á akstursfærni aldraðra og sjúkra ökumanna. Skilgreina þarf mun betur en nú er gert hvaða kröfur beri að gera  um líkamlega og andlega færni til aksturs.

Sjá nánar á vef Rannsóknarnefndar umferðarslysa

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert