Seinkun á flugi til London

Allt er á kafi í snjó í höfuðborg Bretlands.
Allt er á kafi í snjó í höfuðborg Bretlands. Reuters

Miklar tafir eru á Heathrow-flugvelli í London sökum fannfergis. Að sögn Guðjóns Arngrímssonar, upplýsingafulltrúa Icelandair, hefur orðið fjögurra tíma seinkun á flugi til borgarinnar. Hann segir að vélin sem átti að fara í loftið kl. 9 í morgun muni leggja í hann kl. 13.

Hjá Iceland Express, sem flýgur til Stansted, varð um hálftíma seinkun í morgun, en vélin átti að fara í loftið kl. 7:45. 

Snjókoman hefur sett samgöngur á annan endann í Bretlandi og hafa milljónir manna tafist. Heathrow auk annarra flugvalla í London hafa sent frá sér viðvörun vegna veðurs.

Skv. fréttavef Reuters er búið að aflýsa rúmlega 250 flugferðum auk þess sem 1.000 ferðum mun seinka eða verða aflýst. Heathrow er annasamasti flugvöllur heims, en á hverjum degi fara um 180.000 manns um völlinn.

Óhapp varð á flugvellinum í morgun þegar flugvél frá Cyprus Airways fór út af flugbraut í hálku. Vélin var nýlent og var verið að aka henni í átt til flugstöðvarbyggingar þegar hún rann út af brautinni og nefhjól hennar sökk í jörðina. Engan sakaði en vélin var á lítilli ferð. 


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert