Mælt fyrir frumvarpi um Seðlabanka

Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir á Alþingi.
Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir á Alþingi. mbl.is/Kristinn

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, mælti í dag á Alþingi fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands en það gerir m.a. ráð fyrir að bankastjórn Seðlabankans verði aflögð en einn faglegur seðlabankastjóri stýri bankanum. Þá verði sett á fót sérstök peningastefnunefnd sem taki ákvarðanir um stjórntæki bankans í peningamálum.

Sagðist Jóhanna telja, að þær breytingar, sem frumvarpið gerði ráð fyrir, væru frumforsendur þess að takast megi að endurvekja traust á íslensku fjármálakerfi. 

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að forsætisráðherra skipi bankastjóra Seðlabankans að undangenginni auglýsingu. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, spurði Jóhönnu hvað hefði breyst frá því hún fyrir áratug lýsti þeirri skoðun að það væri tímaskekkja að forsætisráðherra skipaði seðlabankastjóra heldur ætti bankaráðið að ráða þá.

Jóhanna sagði að verið væri að innleiða nýja stefnu með því að auglýsa embættið og gera hæfiskröfur til seðlabankastjóra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert