Deilur á Íslandi valda skaða

Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir ræðast við á Alþingi.
Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir ræðast við á Alþingi. mbl.is/Kristinn

Breska fjármálablaðið Financial Times segir að deila forsætisráðherra og seðlabankastjóra auki ekki á trúverðugleika Íslands í augum umheimsins. Þá kunni það einnig að skaða ímynd Íslands í útlöndum ef íslensk stjórnvöld krefjast þess að samkomulag Íslands við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn verði tekið upp og skilmálunum breytt.  

FT segir, að það auki lítið á traust alþjóðlegra fjárfesta á Íslandi að horfa upp á forsætisráðherra lands og formann bankastjórnar Seðlabankans deila hart opinberlega.

Þetta skipti verulegu máli vegna þess að erlendir fjárfestar eigi um það bil 400 milljónir króna í svonefndum jöklabréfum, sem hugsanlega verði seld um leið og gjaldeyrishöftum á Íslandi verði aflétt. Blaðið segir, að heyrst hafi að íslenska ríkisstjórnin ætli að halda sérstakan fund með skuldabréfaeigendunum á næstunni og hugsanlega gera þeim tilboð.

Deila æðstu embættismanna Íslands kunni einnig að grafa undan trausti á að Íslendingum takist að gera þær skipulagsbreytingar, sem kveðið er á um í samkomulagi Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.  Fjárhagsstuðningur sjóðsins sé háður því að samkomulagið gangi eftir. Ný ríkisstjórn á Íslandi hafi gefið til kynna að hún sé óánægð með ýmsa skilmála samkomulagsins og vilji reyna að fá þeim breytt.

„Vísbendingar um að semja eigi að nýju um áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins kunna að hafa skaðvænlegar afleiðingar," segir FT.

Blaðið segir, að íslenskir embættismenn hafi lýst vonbrigðum með pólitískan barnaskap, sem Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, hafi sýnt með því að reyna að niðurlægja Davíð Oddsson Seðlabanka og biðja hann að segja af sér. Augljóst hafi verið, að Davíð myndi ekki taka bréfinu, sem Jóhanna sendi honum og öðrum seðlabankastjórum sl. mánudag, þegjandi. Þetta boði ekki gott fyrir frekari ákvarðanir, sem ríkisstjórnin þurfi að taka til að leysa úr erfiðum vandamálum tengdum fjármálakreppunni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert