Einar Sigurðsson frá Árvakri til Mjólkursamsölunnar

Einar Sigurðsson, forstjóri Árvakurs
Einar Sigurðsson, forstjóri Árvakurs

Einar Sigurðsson, forstjóri Árvakurs hf., hefur verið ráðinn forstjóri Mjólkursamsölunnar frá og með 1. apríl. Einar tekur við starfinu af Magnúsi Ólafssyni, sem að undanförnu hefur bæði  gegnt störfum forstjóra MS og Auðhumlu Svf., móðurfélags MS. Magnús mun áfram starfa sem forstjóri Auðhumlu.

Einar Sigurðsson mun áfram, fyrir hönd Árvakurs, stýra til loka söluferli þar sem unnið er að því að afla félaginu nýs hlutafjár í samvinnu við Nýja Glitni banka.

Fimm óskuldbindandi tilboð komu í nýtt hlutafé í félaginu í síðustu viku og fjórum var boðið áframhaldandi þátttaka í söluferlinu. Þeir eru nú að hefja gagnakönnun og samræður við stjórnendur félagsins. Miðað er við að söluferlinu ljúki með bindandi tilboðum 17. febrúar

„Ég kom hingað að Árvakri með það verkefni að gera umfangsmiklar breytingar á starfseminni til að treysta reksturinn,“ segir Einar.

„Í upphafi árs 2008 virtist þetta hafa tekist en efnahagshrunið, gengisfall krónunnar og áhrif þess á tekjur og skuldir setti okkur í alveg nýja stöðu líkt og mörg önnur fyrirtæki. Ég hef notið til þess ótrúlegs stuðnings og þrautseigju allra starfsmanna og stjórnar félagsins að endurskipuleggja reksturinn í vetur og nú sér fyrir endann á söluferli nýs hlutafjár. Fjórir áhugasamir fjárfestar undirbúa gerð tilboða í hlutafé í fyrirtæki sem gegnir gífurlega mikilvægu hlutverki við þessar kringumstæður í samfélaginu. 80% þjóðarinnar nýta sér á hverjum degi fréttaþjónustu Árvakursmiðlanna, Morgunblaðsins og mbl.is. Þessir miðlar njóta trausts umfram alla einkarekna fjölmiðla í öllum mælingum sem gerðar eru.“

Gert er ráð fyrir að nýtt hlutafé Árvakurs verði gefið út seinni partinn í febrúar þegar núverandi hluthafar færa niður sitt hlutafé í samræmi við samkomulag sem gert var við viðskiptabanka félagsins í upphafi söluferlisins í desember.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert