36 þingmenn vilja hvalveiðar

mbl.is/ÞÖK

Þrjátíu og sex þingmenn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Frjálslynda flokksins hafa lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi um að veiðum á hrefnu og langreyði hér við land skuli haldið áfram, veiðileyfi gefin út til næstu fimm ára og að árlegur leyfilegur heildarafli verði eins og kveðið er á um í veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar.

Um er að ræða meirihluta þeirra þingmanna sem sitja nú á Alþingi en þeir eru samtals 63. 

Einar K. Guðfinnsson, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, er fyrsti flutningsmaður tillögunnar en eitt síðasta verk hans í ráðherraembættinu var að gefa út reglugerð um veiðikvóta fyrir langreyðar og hrefnu til næstu fimm ára og skyldu þeir kvótar fylgja veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Eftirmaður hans, Steingrímur J. Sigfússon, hefur tekið þessa ákvörðun til endurskoðunar og mun birta niðurstöðu sína í næstu viku.

Í greinargerð með tillögunni segir, að með henni sé í raun verið að árétta þau sjónarmið, að hvalveiðar eigi að stunda á grundvelli vísindalegrar ráðgjafar. Við þær aðstæður sem nú ríki varðandi þá spurningu sé tilefni til að leiða fram vilja Alþingis gagnvart þessu viðfangsefni. Sé tillaga þessi flutt í því skyni.

Þingsályktunartillagan

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert