Enginn klofningur framsóknarmanna

Birkir Jón Jónsson, varaformaður Framsóknarflokksins, segir að enginn klofningur sé í þingflokki Framsóknarmanna í afstöðu til seðlabankafrumvarpsins þótt fulltrúar flokksins í viðskiptanefnd þingsins hafi ekki greitt eins atkvæði um málið á fundi nefndarinnar í morgun. 

„Mín afstaða  í morgun var einfaldlega sú, eftir yfirferð um frumvarpið, að það væri tækt til afgreiðslu. Höskuldur (Þórhallsson) félagi minn mat málið öðruvísi, Það er ekkert óeðlilegt við það að menn hafi ekki alltaf sömu skoðanir á hlutunum,. En markmið þingflokksins er skýrt. Að klára þetta mál eins fljótt og hægt er," sagði Birkir Jón.

Höskuldur greiddi í morgun atkvæði með tillögu fulltrúa sjálfstæðismanna í nefndinni að beðið væri með að afgreiða frumvarpið úr viðskiptanefnd fyrir þriðju og síðustu umræðu á Alþingi þar til niðurstöður nefndar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um regluverk eftirlitsstofnana með fjármálastarfsemi lægju fyrir. Þær verða birtar á miðvikudag.

Birkir Jón greiddi hins vegar atkvæði gegn tillögunni ásamt fulltrúum stjórnarflokkanna tveggja.  Hann sagðist ekki telja að efnislegur ágreiningur væri um frumvarpið. „Það er enginn titringur innan þingflokksins og afstaða okkar er skýr, að klára þetta mál sem allra fyrst."

Birkir Jón ítrekaði hann, að Framsóknarflokkurinn stæði við það tilboð sitt að verja ríkisstjórnin falli. Hann sagði, að minnihlutastjórnarformið hefði aukið vægi þingsins til muna sem væri mjög ánægjuleg þróun. „Þessir atburðir í morgun eru einn angi þess."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert