Frakkar í vandræðum á Sprengisandi

Björgunarsveitir Slysavarnafélagins Landsbjargar eru nú á leið til aðstoðar tveimur Frökkum sem eru í vandræðum á Sprengisandi. Ferðalangarnir voru á leið í Nýjadal en veður er kolvitlaust á svæðinu og hafa þeir misst frá sér tjaldið en eru annars vel búnir. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbjörgu.

Frakkarnir komu boðum í gegnum síma til félaga síns í heimalandinu sem hafði samband við Slysavarnafélagið Landsbjörg.

Snjóbíll frá Hjálparsveitinni Dalbjörg fór frá Berglandi fyrir um klukkustund og annar er lagður af stað frá Súlum- björgunarsveitinni á Akureyri. Auk þess hafa vélsleðar verið sendir af stað. Meðlimir úr Dalbjörgu  eru í um 50 km fjarlægð frá frökkunum en þeir voru í æfingaferð á svæðinu. Ferð þeirra sækist hægt þar sem aðstæður eru erfiðar.

Frakkarnir halda nú kyrru fyrir um það bil 10 km vestur af Fjórðungsöldu á Sprengisandi, en ekki hefur enn náðst samband við þá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert