Hansa fær greiðslustöðvun til 8. júní

Björgólfur Guðmundsson.
Björgólfur Guðmundsson. mbl.is/Kristinn

Hansa ehf, félag í eigu Björgólfs Guðmundssonar, var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag veitt heimild til áframhaldandi greiðslustöðvunar. Hansa er eigandi enska úrvalsdeildarliðsins West Ham, en greiðslustöðvunin gildir til 8. júní næstkomandi.

 MP Banki féll í vikunni frá mótmælum sínum við áframhaldandi greiðslustöðvun Hansa ehf.

Margeir Pétursson, stjórnarformaður MP, sagði á þeim tíma að samkomulag hafi náðst milli kröfuhafa Hansa.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins snýst samkomulagið um að allar kröfur verði jafn réttháar. Áður höfðu aðstæður verið þannig að félög tengd Björgólfi Guðmundssyni, sem eru þorri kröfuhafa, höfðu átt forgangskröfur í búið.

Skuldir Hansa ehf. eru, samkvæmt kröfuhafakynningu sem haldin var 4. desember síðastliðinn og Morgunblaðið hefur undir höndum, um 38 milljarðar króna.

Þegar Björgólfur keypti West Ham í nóvember 2006 ásamt Eggerti Magnússyni var kaupverðið 85 milljónir punda auk yfirtöku á 22 milljóna punda skuld. Sú upphæð er í dag um 16,5 milljarðar króna. Því er ljóst að skuldir félagsins eru töluvert meiri en kaupverðið var á sínum tíma.

Stærsti einstaki kröfuhafinn er Straumur fjárfestingarbanki, sem var tekinn yfir af Fjármálaeftirlitinu (FME) á mánudag vegna lausafjárerfiðleika. Hansa skuldar bankanum um 14 milljarða króna. Íslenska ríkið hefur ábyrgst innstæður í Straumi fyrir um 60 milljarða króna og á því töluvert undir því að fá kröfur á borð þá sem bankinn á í bú Hansa greiddar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert