Verð á ýsu hækkað lítið eða lækkað milli áranna 2007 og 2009

Hægt er að gera góð ýsukaup.
Hægt er að gera góð ýsukaup. mbl.is/ÞÖK

Verð á ýsuafurðum til neytenda hefur víða hækkað minna en aðrar fiskafurðir eða lækkað milli áranna 2007 og 2009. Fram kemur á vef ASÍ að ef neytendur nýti sér ódýrasta verðið sem sé í boði í markaðinum þá sé um verulega verðlækkun að ræða. Lægsta verðið á ýsuflökum m/roði og beini og nætursaltaðri Ýsu hafi lækkað um 22%.

Þá segir að við samanburð verðkönnunar 11. mars sl. og verðkönnunar sem gerð var í janúar 2007, komi í ljós að verð á fersku fiskmeti hafi breyst mikið. Verðið hafi hækkað hlutfallslega mest í Hagkaupum, Fjarðarkaupum, Fiskbúðinni Hafberg og Fiskbúðinni Hófgerði.

„Mesta hækkunin var í Hagkaupum, 68% á heilum slægðum Laxi, Bleikjuflökin hækkuðu um 44%, gellur um 37% og Ýsa með roði og beini um 21%. Í Fjarðarkaupum hækkuðu útvötnuð saltfiskflök um 61 %, Rauðsprettuflökin hækkuðu um 40% , lax í sneiðum um 37% og kinnar um 30%, svo einhver
dæmi séu nefnd,“ segir á vef ASÍ.

„Mest hækkuðu ýsuafurðir í Fiskbúðinni Hafberg einnig voru miklar hækkanir í Fiskbúðinni Hófgerði, Kóp, þegar aðrar verslanir hækkuðu lítilsháttar eða lækkuðu verð. Engin lækkun var á Ýsau hausaðri og slægðri, heldur hækkaði um 38% í Fiskbúðinni Hafberg, 25% í Fiskbúðinni Trönuhrauni, 23% í Fiskbúðinni Hófgerði Kópavogi, 14% í Fiskbúðinni Trönuhrauni 9 og stóð í stað í Fiskbúðinni Vegamótum,“ segir jafnframt á vefnum.

Einnig kemur fram frá janúar 2007 hafi fisksöluaðilum fjölgað á markaðinum. Þar muni mest um verslanir sem Fiskisaga hafi selt til nýrra rekstraraðila.

Nánari samanburð er að finna á vef ASÍ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert