Kakkalakki á fjórhjóli

Kakkalakki á ferð og flugi
Kakkalakki á ferð og flugi mbl.is/Helgi Gardarsson

Hann var hálf-kaldur og ræfilslegur kakkalakkinn sem hugðist taka sér far með fjórhjóli Einars Björnssonar á Eskifirði í fyrradag. Honum varð þó ekki kápan úr því klæðinu því Einar náði að grípa laumufarþegann sem nú er á leið í hendur sérfræðinga „fyrir sunnan“.

„Ég var að fara í vinnuna um morguninn þegar ég sá hann allt í einu skella á hjólinu,“ segir Einar. „Hann var svolítið daufur út af kuldanum því það var um tveggja, þriggja gráða frost. Svo braggaðist hann nú þegar ég var búinn að koma honum inn og gefa honum að éta.“

Einar hefur ekki hugmynd um hvaðan skepnan kom. „Manni hálf-bregður, því maður hélt að Ísland væri laust við svona kvikindi. Alla vega vantar okkur þetta ekki í skordýraflóruna hér.“

Þetta er þó aldeilis ekki í fyrsta sinn sem framandi kynjaverur af þessu tagi verða á vegi Einars. „Fyrir nokkrum árum fann ég leðurblöku, reyndar dauða, en hún var föst í nýjum bíl sem ég fékk sendan að utan. Svo fann ég einu sinni mjög stórt fiðrildi sem hafði fokið hingað undan vindum. Þannig að þetta er að verða sérgrein hjá mér að finna einhver furðuleg skorkvikindi,“ segir hann og hlær.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert