Norðurströnd hækkar laun starfsfólks

mbl.is

Á fundi í dag tilkynntu eigendur fiskvinnslufyrirtækisins Norðurstrandar á Dalvík að það ætli sér að standa við gerða samninga og hækka taxta frá og með 1. mars. sl. Fetar fyrirtækið þar í fótspor Brims og HB Granda sem einnig hafa ákveðið að hækka laun starfsfólk þrátt fyrir samkomulag um að fresta áður ákveðnum launahækkunum.

Þetta er góðar fréttir, segir Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, í frétt á vef félagsins. „Það er glæsilegt þegar vel gengur og gaman að heyra af þessi uppbyggingu á Dalvík. Við fögnum öllum þeim sem ákveða að hækka taxtana þrátt fyrir umsamda frestun.“

Guðmundur St. Jónsson, framkvæmdastjóri Norðurstrandar, sagði í samtali við tíðindamann heimasíðu Einingar-Iðju að nú væri rétti tíminn til að hækka taxtana.

„Hækkunin nær yfir alla starfsmenn fyrirtækisins, bæði á Dalvík og Blönduósi. Alls starfa 50 starfsmenn hjá okkur, þar af 15 í Sæmá, dótturfyrirtæki okkar á Blönduósi. Við erum búnir að standa í mikilli uppbyggingu undanfarin ár og höfum bætt aðstöðuna hjá okkur, endurnýjað tæki, stóraukið framleiðsluna og afurðaflokkum fjölgað. Á sl. tveimur árum hefur veltan þrefaldast og á þessu ári stefnir í að velta fyrirtækisins nemi um 1,5 milljörðum króna. Aðalmálið er samt að við viljum gera vel við okkar starfsfólk því það á stóran þátt í velgengninni. Norðurströnd hefur ekki verið að greiða arð til eigenda en nú sjáum við fram á bjartari tíma. Auðvitað hefðum við viljað fá meiri peninga í hús áður en við gerum vel við starfsfólkið, en okkur finnst þetta vera rétti tíminn til að hækka taxtana,“ segir Guðmundur.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert