Listaverk bankanna verði metin

Nokkur helstu listaverka Landsbankans eru naglföst, þar á meðal þessar …
Nokkur helstu listaverka Landsbankans eru naglföst, þar á meðal þessar teikningar Kjarvals á bankastjóragangi í aðalbankanum.

Viðskiptanefnd Alþingis leggur til, að ríkisstjórnin hlutist til um að fram fari listfræðilegt mat á listaverkasöfnum Íslandsbanka, Nýja Kaupþingi    og NBI í því skyni að undirbúa kaup á þeim listaverkum sem teljast þjóðargersemar og gætu verið verðug viðbót við listaverkaeign Listasafns Íslands.

Nefndin hefur skilað álit um þingsályktunartillögu, sem þær Álfheiður Ingadóttir og Kolbrún Halldórsdóttir, þingmenn VG, lögðu fram í haust en samkvæmt þeirri tillögu átti að fela ríkisstjórninni að afhenda Listasafni Íslands til eignar og varðveislu listaverk í eigu hinna nýju ríkisbanka.

Í áliti viðskiptanefndar segir, að talið sé að við bankahrunið hafi verið um 4000 verk í eigu gömlu bankanna og þau séu hluti af íslenskum menningararfi.  Varðandi eignarhald á listaverkunum liggi  fyrir upplýsingar í umsögn Fjármálaeftirlitsins að við færslu eigna frá gömlu bönkunum til nýju bankanna hafi öll listaverk fylgt með. Jafnframt komi þar fram að endurskoðunarfyrirtæki, sem eftirlitið hafi ráðið til að gera verðmat á eignum nýju bankanna áætli að ljúka því um miðjan apríl nk. Því sé ljóst að listaverkin munu verða eign Nýja Kaupþings banka hf., Íslandsbanka hf. og NBI hf., sem allir eru í ríkiseigu.

Í breytingartillögu nefndarinnar við þingsályktunartillöguna segir, að leitast skuki við að tryggja að þjóðargersemar og þýðingarmikil listaverk verði varðveitt og þau ekki seld eða látin af hendi úr framangreindum listaverkasöfnum án þess að þau verði fyrst boðin Listasafni Íslands til kaups.

Þá er einnig lagt til að listfræðilegu mati á verkunum verði lokið eigi síðar en 1. október 2009 og verði niðurstaða þess þá kynnt í ríkisstjórn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert