Þarf samþykki allra fyrir greiðslufrystingu

mbl.is

Þegar lántakandi sækir um og fær samþykkta greiðslufrystingu hjá Íbúðalánasjóði þurfa aðrar lánastofnanir, sem eru þá með 2. og 3. veðrétt jafnframt að samþykkja greiðslufrystinguna.

Frjálsi fjárfestingarbankinn samþykkir ekki frystinguna ef veðsetning eignar á láni á 1. veðrétti eða jafnvel að meðtöldum lánum á síðari veðréttum er hærra en 100% af markaðsverði eignarinnar. Lánanefnd bankans tekur fyrir og afgreiðir öll erindi vegna umsókna um greiðslufrystingu.

Kristinn Bjarnason, framkvæmdastjóri Frjálsa, segir að samkvæmt lánareglum bankans og í samræmi við samkomulag um beitingu greiðsluerfiðleikaúrræða sem undirritað var 3. apríl sl. megi veðsetning eignar að lokinni greiðslufrestun ekki vera hærri en 100% af markaðsvirði. Samkomulagið sem Kristinn vísar þarna í var undirritað og kynnt sl. föstudag.

Á vef Íbúðalánasjóðs segir: „Umsókn um greiðslufrestun á lánum þarf að fara í gegnum banka og sparisjóði eða Ráðgjafarstofu heimilanna,“ og jafnframt: „Ekki er hægt að sækja beint um frystingu hjá Íbúðalánasjóði. Ef umsækjandi á í verulegum greiðsluvanda, kominn í þrot með fjármál sín eða staða hans að öðru leyti umfangsmikil að mati fjármálastofnunar, vísar hún umsókn til Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna. Starfsfólk Ráðgjafarstofunnar skoðar málið og gerir svo tillögu til Íbúðalánasjóðs og hlutaðeigandi fjármálastofnana um úrlausnir.“

Morgunblaðið sendi fyrirspurnir til Íslandsbanka, Landsbankans og Nýja Kaupþings um hvernig umsóknir um greiðslufrystingu væru meðhöndlaðar þar. Í svarinu frá Kaupþingi kemur ekki fram fyrirvari um veðsetningarhlutfall, heldur segir: „...að almennt séu slíkar frystingar samþykktar“.

Í svari Landsbankans er sleginn varnagli: „Almennt gildir að það fer eftir greiðslugetu skuldara og veðhlutfalli fasteignar hvort umsóknir eru samþykktar eða ekki.

Landsbankinn er aðili að samkomulagi milli fjármálastofnana og fylgir því sömu meginreglum og Íbúðalánasjóður gerir,“ segir í svarinu. Jafnframt kemur fram að biðji einstaklingar um greiðslufrystingu lána hjá Íbúðalánasjóði að undangengnu greiðslumati frá fjármálastofnun, sem sýnir fram á að greiðandi geti staðið í skilum og að veðhlutföll séu innan tilskilinna marka, sé slíkt samþykkt.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert