Nýr páskasálmur frumfluttur

Dr. Sigurbjörn Einarsson þýddi páskasálminn.
Dr. Sigurbjörn Einarsson þýddi páskasálminn. Þorkell Þorkelsson

Páskasálmurinn „Nú máttu' ekki María gráta“ var frumfluttur í messum í Dómkirkjunni, Fella- og Hólakirkju og í Akureyrakirkju í morgun, páskadag. Sálmurinn er þýðing dr. Sigurbjörns Einarssonar á sálmi eftir sænsku skáldkonuna  Ylvu Eggerhorn.

 Sálmurinn er útlegging á því þegar María Magdalena stendur grátandi fyrir utan gröf Jesú og Jesús kemur til hennar og huggar hana.

Nú máttu´ ekki, María, gráta,
meistarinn er ekki hér,
þar sem þú grúfir og grætur
gröfin og myrkrið er.

Líttu til annarrar áttar,
upp frá harmi og gröf:
Ljóminn af lífsins sigri
leiftrar um jörð og höf.

Sjá, já, nú sérðu, María,
sjálfur er Jesús hjá þér
upprisinn, ætlar að fæða
allt til nýs lífs með sér.

Syng því í sigurgleði.
Syng fyrir hvern sem er:
Kærleikans sól hefur sigrað,
sjálfur er Kristur hjá þér.

Á vef þjóðkirkjunnar, www.kirkjan.is, er vísaða í viðtali sem Sjónvarp kirkjunnar tók við dr. Einar Sigurbjörnsson, en þar segir hann:

„Það er mikill boðskapur í þessum hérna sálmi og mér finnst mjög vænt um að við skyldum hafa fundið hann og hann verði nú frumfluttur um þessa páska. Hann lýsir boðskap páskanna á mjög ljósan hátt. Sigri kærleikans, sigri Jesú Krists.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert