Guðlaugur telur málið ekki skaða flokkinn

Guðlaugur Þór Þórðarson
Guðlaugur Þór Þórðarson mbl.is/Ómar

Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður hefur sent erindi til Innri endurskoðunar borgarinnar þar sem hann óskar eftir úttekt á störfum sínum sem stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur. „Það eru mínir hagsmunir að þessar upplýsingar liggi fyrir sem fyrst,“ segir Guðlaugur Þór.

Inntur eftir því hvort hann hyggist verða við þeirri áskorun að opna bókhald sitt í tengslum við prófkjör segir Guðlaugur Þór sjálfsagt að gera það að því gefnu að aðrir flokkar og aðrir einstaklingar geri það líka. „Enda tel ég hæpið að taka út einn og einn frambjóðanda.“

Spurður hvort hann hafi tekið það upp hjá sjálfum sér að hvetja menn til að aðstoða við fjáröflun fyrir Sjálfstæðisflokkinn í árslok 2006 eða hann verið beðinn um slíkt svarar Guðlaugur Þór: „Ég tók þetta ekki alveg upp hjá sjálfum mér heldur kom þetta upp í samtali við þáverandi framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins,“ segir Guðlaugur Þór, og vísar þar til Andra Óttarssonar.

„Aðalatriðið í málinu er að það liggur alveg fyrir hver tók ákvarðanir í þessu máli, hver ber ábyrgð á því og það er ekki þannig að einn eða neinn geti tekið það upp hjá sjálfum sér að safna einhverjum peningum.“

Spurður hvort hann telji að málið muni skaða hann og Sjálfstæðisflokkinn í komandi alþingiskosningum svarar Guðlaugur Þór því neitandi og bendir á að þrátt fyrir styrkjaumræðuna alla sé Sjálfstæðisflokkurinn að bæta við sig fylgi milli kannana. Sem dæmi hafi Sjálfstæðisflokkurinn bætt við sig 0,3% fylgi í Reykjavíkurkjördæmi norður frá síðustu könnun. „Það er ljóst að við erum að auka við fylgi okkar á landsvísu, enda tvær kannanir sem staðfesta það. Það er því enginn vafi í mínum huga að Sjálfstæðisflokkurinn er í sókn þrátt fyrir það að ákveðnir fjölmiðlar hafa hagað sér eins og þeir hafa gert.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert