Vargar rústuðu æfingasvæði SHS

mbl.is/Júlíus

Æfingasvæði slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins var eyðilagt aðfaranótt sumardagsins fyrsta. Gámar sem notaðir eru til reykköfunaræfinga voru sprengdir og kveikt í þeim. Tjónið hleypur á milljónum króna. Ekki er vitað hverjir þarna voru að verki.

Æfingasvæði SHS er við svokallað Leirtjörn við rætur Úlfarsfells. Þar hefur slökkviliðið á undanförnum árum byggt upp æfingaaðstöðu fyrir liðsmenn sína og annarra slökkviliða landsins. Ennfremur hafa þeir sem sækja námskeið hjá Slysavarnaskóla sjómanna, æft brunavarnaþátt námskeiðanna á æfingasvæði SHS.´

Skemmdarfýsnin með ólíkindum

„Við fengum útkall aðfaranótt sumardagsins fyrsta. Þegar við komum að þá var megnið af þessu brunnið. Það tók um klukkutíma að slökkva það sem slökkva þurfti,“ segir Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu.

Hann segir aðkomuna hafa verið nöturlega, skemmdarfíkn þeirra sem þarna voru að verki hafi verið með ólíkindum. Allt var eyðilagt sem hægt var að eyðileggja. Meira að segja voru girðingar umhverfis svæðið rifnar niður.

„Þarna voru engin börn að verki, það kæmi mér að minnsta kosti mjög á óvart. Þetta er alveg skelfilegt mál fyrir öll slökkvilið landsins. Þarna vorum við með gámasamstæður til að æfa reykköfun við mismunandi aðstæður og hitastig. Það voru ekki geymd þarna verðmæt reykköfunartæki eða annað slíkt en aðstaðan sem við höfum skapað þarna og lágmarksbúnaður sem tengist æfingunum er allt farið. Þetta er stórmál. Þarna er búið að eyðileggja æfingasvæði slökkviliðsins. Tjónið hleypur á milljónum króna hið minnsta. Nú þarf ég að finna einhverjar leiðir til að skapa aðstöðu fyrir mína menn. Sem betur fer eru útköll vegna stórbruna ekki á hverjum degi þannig við verðum að æfa okkur líkt og þarna var gert,“ segir Jón Viðar.

Æfum okkur ekki í útköllum

Hann segir störf slökkviliðsmanna háð því að menn séu búnir að þjálfa sig áður en útkallið kemur. Þeir búi ekki við þann munað að geta þjálfað sig í útköllunum sjálfum. Þá eigi þeir að vera til alls búnir.

„Það eru bæði ákvæði í lögum og reglugerðum þess efnis að slökkviliðsstjóri ber ábyrgð á að hans menn fái þá þjálfun sem er æskileg miðað við þjónustu sem viðkomandi slökkvilið veitir. Þetta er það svæði sem við nýttum til að uppfylla þessi ákvæði. Og þarna hafa slökkviliðsmenn víða að af landinu fengið þjálfun. Það eru fá svona svæði á landinu og þetta var það eina af þessari stærðargráðu,“ segir Jón Viðar Matthíasson.

Hann segir svæði líkt og var við rætur Úlfarsfells að því leytinu betra að þarna geti slökkviliðsmenn búið til mismunandi aðstæður og haft stjórn á þeim. Í gömlum húsum sem stundum eru nýtt til æfinga áður en þau eru rifin, sé erfiðara að hafa stjórn á hlutunum.

Tímafrekt að byggja nýja æfingaaðstöðu

Jón Viðar segir ekki ljóst hvort byggt verður upp á sama svæði eða á nýjum stað. Það megi þó ekki vera of langt frá starfssvæði slökkviliðsins þannig að komi niður á útkallstíma, því slökkviliðsmenn stundi líka æfingar á vinnutíma.

„Það mun taka langan tíma að byggja upp nýja aðstöðu. Jafnvel þó við hefðum ótakmarkað fjármagn þá tekur það okkur sex til tólf mánuði að byggja upp sambærilega aðstöðu. Á meðan erum við án æfingasvæðis. Ég get þó fullyrt að við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að þjónusta okkar svæði jafnvel og áður, þrátt fyrir þessa hörmulegu uppákomu,“ segir Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri SHS.

Frá æfingu SHS við Úlfarsfell
Frá æfingu SHS við Úlfarsfell
Frá æfingu SHS við Úlfarsfell.
Frá æfingu SHS við Úlfarsfell.
Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri SHS.
Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri SHS. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert