Ræningjar handteknir

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur handtekið tvo karlmenn og tvær konur vegna ráns, sem framið var á laugardagskvöld þegar ruðst var inn í hús aldraðra hjóna og þeim haldið þeim í gíslingu og hótað lífláti. Gert er ráð fyrir að krafist verði gæsluvarðhalds yfir fólkinu á morgun.

Karl og kona voru handtekin fyrr í dag en hin tvö nú síðdegis. Eru þrjú þeirra talin hafa lagt á ráðin um ránið og ein kona er grunuð um að hafa haft vitneskju um málið, að sögn Ómars Smára Ármannssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns. Allt er fólkið á milli tvítugs og þrítugs.

Tveir menn ruddust inn í hús við Mávanes á Arnarnesi, vopnaðir hnífum og hótuðu hjónum, sem þar búa, lífláti létu þau ekki alla fjármuni af hendi. Mennirnir eru Íslendingar. Þeir voru íklæddir hettupeysum, með klúta fyrir vitum og hanskaklæddir.

Að sögn lögreglunnar héldu mennirnir hjónunum í gíslingu í um 15-20 mínútur meðan þeir fóru ránshendi um íbúðina. Tóku þeir hringa af fingrum konunnar, einnig farsíma, seðlaveski með um 60.000 kr., upptökuvél og fartölvu. Voru aðfarir mannanna mjög harkalegar og er konan nokkuð lemstruð.

Áður en mennirnir fóru úr húsinu skáru þeir á símalínur svo heimilisfólkið gæti ekki haft samband við lögreglu. Hjónunum tókst hins vegar að finna gamlan síma, sem það setti í samband og gátu þannig hringt á hjálp.

Ómar Smári sagði, að lögð hefði verið mikil áhersla á það af hálfu lögreglunnar að upplýsa málið, enda þyrfti ekki að hafa mörg orð um hversu alvarleg afbrot væri um að ræða. Hann sagði, að þótt lýsing hefði legið fyrir á  mönnunum hefðu þeir verið grímuklæddir. Hins vegar hefði lögreglan nýtt mikla reynslu og þekkingu, sem hún býr yfir, til að finna ræningjana. 

Ómar Smári sagði aðspurður, að fólkið hefði komið við sögu lögreglunnar áður. Hann sagði að þýfið hefði fundist í fórum hinna handteknu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert