Segir fólki ráðlagt að skilja á pappírum

„Mér finnst hálfsorglegt að fjármálafyrirtæki og ráðgjafar séu að hvetja fólk til þess að skilja á pappírunum sem einhvers konar lausn á sínum málum,“ segir sr. Þórhallur Heimisson, sóknarprestur í Hafnarfirði. Hann er meðal þeirra sem hafa orðið varir við aukna umræðu um að hjón og sambúðarfólk grípi til þessa úrræðis í því skyni að njóta bóta og afslátta sem einstæðum foreldrum bjóðast.

„Ég veit að bankar og fjármálafyrirtæki hafa ráðlagt fólki að gera þetta með einhverjum rökum sem ég veit ekki hver eru og einnig að fólk er að hugsa um þetta sjálft,“ heldur Þórhallur áfram. „En í raun og veru er fólk að skilja með þessu. Þótt það sé kallað að skilja á pappírnum þá sýnir reynslan að þetta er oft bara fyrsta skrefið í því að það slitni endanlega upp úr fjölskyldunni. Þetta er því mjög varhugavert, bæði vegna þess að gróðinn af slíkri örvæntingaraðgerð er mjög óljós og menn verða að reikna út alla kosti og galla, ekki bara þá fjárhagslegu.“

Í nýjum bráðabirgðatölum frá Hagstofunni kemur fram að tíðni skilnaða og sambúðarslita var svipuð síðasta ár og árin á undan en að sögn Guðjóns Haukssonar hjá Hagstofunni er ekki við því að búast að breytingar sem gæfu til kynna sýndarskilnaði skili sér í tölum hennar fyrr en árið 2009 verður gert upp á næsta ári.

Þá fengust þær upplýsingar hjá ríkisskattstjóra sem og Tryggingastofnun að þar hefðu menn ekki orðið varir við slíka þróun enda erfitt að ná utan um slík mál þar á bæ.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert