Bréf Þjóðverja til Kaupþings birt

Kaupþing í Lúxemborg.
Kaupþing í Lúxemborg. Reuters

Rafræn bréf milli Kaupþings og þýskra yfirvalda frá í maí voru birt viðskiptanefnd Alþingis í morgun. Fram kom í maí að einhverjir túlkuðu bréfin þannig, að þýsk fjármálayfirvöld hefðu þar haft í hótunum við skilanefnd Kaupþings til að knýja á um greiðslu á kröfum innistæðueigenda Kaupþings í Þýskalandi.

Í bréfunum varar Peter Görß fyrir hönd þýska fjármálaráðuneytið við „gífurlegum stjórnmálalegum skaða fyrir orðstír Íslands sem ábyrgum og trúverðugum samstarfsaðila" sem gætu orðið afleiðingar þess að endurgreiðsla innistæðanna færu ekki fram. Þá ræður hann skilanefndinni frá að stöðva endurgreiðsluferlið en vísar ekki til neinna afleiðinga af því.

Eru bréfin öll kurteislega orðuð á fremur stirðbusalegri ensku.

Þýska fjármálaráðuneytið gaf leyfi fyrir því að bréfin yrðu gerð opinber. Í bréfi skilanefndar Kaupþings til viðskiptaráðuneytisins frá áttunda júní segir að að því leyfi fengnu standi ákvæði upplýsingalaga því ekki í vegi fyrir að veita aðgang að bréfunum .

Engin hótun í bréfunum

„Ég sé ekki að þetta sé alvarleg hótun og ekki í líkingu við það sem menn sögðu," segir Álfheiður Ingadóttir, formaður viðskiptanefndar. Hún segir að hver og einn verði að túlka bréfið fyrir sig en efni þess sé skýrt og það tali sínu máli.

Skilningur Álfheiðar er í samræmi við efni fyrrnefnds bréfs skilanefndar til viðskiptaráðuneytisins. Í því segir að ekki hafi verið litið á skrifin sem hótun og umfjöllun í um þau á þeim forsendum hörmuð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert