Eiginfjárhlutfall íbúðareigenda snarlækkar

Í heild hafa skuldir með veði í íbúðarhúsnæði numið að meðaltali um 35% af fasteignamati samkvæmt álagningu ríkisskattstjóra fyrir tekjuárin 1992 til 2007. Eiginfjárhlutfall í íbúðarhúsnæði hefur því verið um 65% en nú er áætlað að þetta hlutfall lækki í um það bil 44% í lok þessa árs.

Þetta kemur fram í nýju vefriti fjármálaráðuneytisins. Þar segir, að  65% eiginfjárhlutfallið hafi verið nokkuð stöðugt frá 1992, sem þýði að íbúðaskuldir hafi hækkað í takt við íbúðaverð.

Nú sé áætlað að þróun fasteignaverðs og fasteignaskulda á árunum 2008 og 2009 leiði til þess að eiginfjárhlutfallið lækki í u.þ.b. 44% í árslok 2009. Fjármálaráðuneytið segir, að það sem valdi þessari miklu lækkun á hlutfallinu sé tvennt. Nafnvirði íbúða sé að lækka, og sem meiru skipti,  íbúðaskuldir hafi hækkað mikið í kjölfar verðuppfærslu á höfuðstóli lánanna vegna verðbólgu og lækkunar á gengi krónunnar.

Í árslok 2007 nam íbúðareign samkvæmt fasteignamati 2432 milljörðum en íbúðaskuld 862 milljörðum króna. Um 100.000 heimili voru skráð fyrir íbúð. Þar af skulduðu 27.000 heimili ekkert í íbúðum sínum, en 17.500 fjölskyldur skulduðu sem nam 80% eða meira í íbúðum sínum.

Fjármálaráðuneytið segir, að reynslan bendi til að fasteignamarkaðurinn og skuldir heimila nái jafnvægi þegar tekjur taki að aukast á ný. Því megi telja líklegt að íbúðaverð og eiginfjárhlutfall fari hækkandi eftir nokkur ár.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert