Ekki auðvelt að ná Al-Thani

Mohamed Bin Khalifa Al-Thani
Mohamed Bin Khalifa Al-Thani

Stjórnvöld í Katar munu taka sjálfstæða afstöðu til beiðni embættis sérstaks saksóknara um vitnisburð sjeiks Mohameds Bin Khalifa Al-Thanis í tengslum við rannsókn á kaupum á hlutabréfum hans í Kaupþingi fyrir bankahrunið. Sjeikinn hefur ekki verið yfirheyrður en hann er bróðir valdamesta manns í Katar. Sem kunnugt er leikur grunur á að um sýndarviðskipti hafi verið að ræða.

Embætti sérstaks saksóknara beitir nú öllum tiltækum ráðum til að kalla sjeik Mohamed Bin Khalifa Al-Thani, bróður emírsins af Katar, til yfirheyrslu í tengslum við rannsókn á hlutabréfakaupum hans í Kaupþingi fyrir bankahrunið, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins.

Ólafur Ólafsson og Hreiðar Már Sigurðsson hafa þegar verið yfirheyrðir vegna málsins. Grunur leikur á að um sýndarviðskipti hafi verið að ræða. Verið er að skoða hvort þau kunni að varða annars vegar við ákvæði um markaðsmisnotkun í lögum um verðbréfaviðskipti og hins vegar við ákvæði auðgunarbrotakafla hegningarlaga.

Vitnisburður Al-Thanis er talinn nauðsynlegur til að varpa frekara ljósi á málavexti. Íslenska ríkið hefur ekki boð- og löggæsluvald í öðrum löndum og því þarf að fylgja viðurkenndum samskiptareglum. Beiðni um yfirheyrslu fer í gegnum svokallaða gagnkvæma réttaraðstoð við meðferð sakamála milli landa (e. mutual assistance). Stjórnvöld í Katar taka síðan sjálfstæða ákvörðun um hvernig fara skuli með beiðni embættis sérstaks saksóknara, en málið varðar bróður valdamesta manns landsins.

Ef vitnisburður sjeiksins fæst ekki þarf ákæruvaldið samt að sýna fram á að öllum tiltækum úrræðum hafi verið beitt til að fá slíkan vitnisburð fram. Allur vafi við hugsanlega meðferð málsins fyrir dómstólum yrði túlkaður sakborningum í hag.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert