Verðlaunuð af Bandaríska jarðeðlisfræðisambandinu

Frá borginni Santa Cruz í Kaliforníu.
Frá borginni Santa Cruz í Kaliforníu. Reuters

Hlaut viðurkenningu Bandaríska jarðeðlisfræðisambandsins á ráðstefnu sambandsins. Tíu þúsund vísindamenn sýndu verkefni sín, þar á meðal nokkur þúsund námsmenn.

María Helga Guðmundsdóttir, íslenskur BS-nemi við jarðfræðideild Stanford-háskóla í Kaliforníu, hlaut á dögunum viðurkenningu Bandaríska jarðeðlisfræðisambandsins (American Geophysical Union) fyrir framúrskarandi verkefni eftir námsmann (Outstanding Student Paper Award) á haustráðstefnu sambandsins, sem haldin var í San Francisco í desember síðastliðnum.

Ráðstefnan, sem stendur yfir í fimm daga, er stærsta árlega vísindaráðstefna í heiminum, en hana sækja yfir 16.000 jarðeðlisfræðingar frá öllum heimshornum. Þar sýna ár hvert um tíu þúsund vísindamenn afrakstur rannsókna sinna á öllum sviðum jarðeðlisfræði, þar á meðal nokkur þúsund nemar á öllum stigum háskólanáms.

Veggspjald Maríu, "Mechanisms of tectonic uplift in the Santa Cruz Mountains, CA", var eitt af níu verkefnum á jarðhnikseðlisfræðisviði (e. tectonophysics), og um 160 verkefna af ráðstefnunni allri, sem hlutu viðurkenningu sambandsins að þessu sinni.

Viðurkenningin er veitt fyrir afbragðs rannsóknir, framsetningu, og flutning annaðhvort veggspjalds eða fyrirlesturs. Afrek Maríu þykir sérstaklega eftirtektarvert í ljósi þess að yfirgnæfandi meirihluti nemenda sem birta rannsóknir sínar á ráðstefnunni eru framhaldsnemar, flestir á efri stigum doktorsnáms, en María er á 3./4. ári grunnáms í Stanford.

Í rannsóknum sínum leitast María eftir því að mæla og túlka landrismynstur í Santa Cruz fjallgarðinum í Kaliforníu, en fjallgarðurinn myndast þar sem sveigur kemur á San Andreas-sprunguna, eitt stærsta sniðgengi í heiminum. Niðurstöður rannsóknanna benda til þess að virks landriss vegna flekahreyfinga gæti á mun stærra svæði en áður var talið, sem kann að hafa í för með sér meiri skjálftavirkni á svæðinu en álitið hefur verið til þessa.

María lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð vorið 2005 og hefur stundað nám við Stanfordháskóla frá hausti sama árs, utan veturinn 2008, þegar hún var skiptinemi við Potsdam-háskóla og Humboldt-háskólann í Berlín. Samhliða BS-náminu í jarðfræði, sem hún áætlar að ljúka vorið 2010, stundar hún nám til BA-gráðu í þýskum bókmenntum.
 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert