Fullar fangageymslur á Akranesi

Írskir dagar á Skaganum
Írskir dagar á Skaganum Sigurður Elvar

Lögreglan á Akranesi hefur haft í nógu að snúast um helgina en þar standa nú yfir Írskir dagar og er afar fjölmennt í bænum. Að sögn lögreglu var nóttin nú mjög erilsöm og mikil ölvun í bænum.

Hápunktur hátíðarinnar í gær var hið árvissa Lopapeysuball sem haldið var við höfnina. Að sögn lögreglu ríkti mikil gleði í bænum og gengu hátíðahöldin almennt vel fyrir sig en mörg smávægileg mál komu þó upp. Nokkrir voru teknir fyrir ölvunarakstur og jafnframt nokkrir grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna.  Að sögn lögreglu var einnig nokkuð um ryskingar manna á milli sem hafa þurfti afskipti af en engir alvarlegir áverkar. Þá var eitthvað haldlagt af fíkniefnum en lögregla segist enn ekki hafa haft tóm til að taka saman heildartölur yfir nóttina. Fangageymslur á Akranesi hafa verið fullar alla helgina.

Lokahnykkur Írskra daga er í dag  og hefst dagskráin kl. 11:00 með ratleik á Safnasvæðinu. Frá kl. 14:00 - 16:00 verður svo fjölskyldudagur í Skógræktinni þar sem m.a. verður grillað og boðið upp á hoppkastala, danssýningar og Brúðubílinn. 

Þetta er í áttunda sinn sem hátíðin Írskir dagar er haldin á Akranesi. Komið hefur fyrir að hátíðahöldin fari úr böndunum vegna unglingadrykkju og óláta en í ár virðist hafa tekist vel til að hafa rólegra yfirbragð á hátíðinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert