Icesave rætt á hollenska þinginu

Icesave reikningur Landsbankans
Icesave reikningur Landsbankans Retuers

Fjallað var um Icesave á hollenska þinginu þann 25. júní sl. Var það gert í tilefni af nýrri skýrslu um ábyrgð hollenska fjármálaeftirlitsins. Samkvæmt skýrslunni er ábyrgð hollenska fjármálaráðuneytisins engin og sagði fjármálaráðherra Hollands, Wouter Bos, á þinginu að hann væri sammála niðurstöðu skýrsluhöfunda.

Þetta kemur fram í bréfi sem Frank van 't Geloof, einn fulltrúa hollensku sparifjáreigendanna sem hafa hótað íslenska ríkinu lögsókn, til Höskuldar Þórhallssonar, þingmanns Framsóknarflokksins.


Segir í bréfinu að skýrslan sýni það og sanni að Fjármálaeftirlitið íslenska hafi ekki sinnt eftirlitshlutverki sínu og Bos hafi tekið undir það á þinginu, líkt og aðrir þingmenn sem voru staddir í þingsal er umræðurnar fóru fram.

Á það við bæði um stjórnarliða og stjórnarandstöðuna. Var þingheimur sammála um að hollenska ríkið gæti ekki skilið einstaklinga, sem væru fórnarlömb í máli þessu, eftir hjálparlausa.

Í gær sendi fjármálaráðuneytið frá sér fréttatilkynningu þar sem segir að Bos, fjármálaráðherra Hollands, hafi sent Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra bréf þar sem fram kemur að hollensk stjórnvöld muni ekki eiga aðild að hugsanlegum málaferlum hollenskra innstæðueigenda á hendur íslenskum stjórnvöldum.

Í bréfinu kemur ennfremur fram að Ísland sé virtur þátttakandi í alþjóðasamfélaginu og sem lýðræðis- og réttarríki búi Ísland við sjálfstætt og óháð réttarkerfi. Á grundvelli þess telur fjármálaráðherra Hollands að hollenskir innstæðueigendur myndu fá réttláta málsmeðferð fyrir dómstólum á Íslandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert